Ólíkir sjúkdómar herja á konur og karla

Sjúkratryggingar Íslands hafa sent frá sér athyglisverða samantekt á aldurs- og kynjadreifingu sjúklinga sem leita til sérfræðilækna. Almennt leita mun fleiri konur til sérfræðilækna en karlar og er margt athyglisvert að skoða hvað varðar einstakar sérgreinar. Konur eru miklu fleiri í hópi þeirra sem fara til lýtalækna, þær virðast miklu fremur glíma við ofnæmis- og ónæmissjúkdóma, gigt og hússjúkdóma. Það vekur athygli að margar eldri konur eiga við lungnasjúkdóma að stríða og eru það sennilega afleiðingar reykinga fyrr á ævinni en á tímabili gekk betur að fá karla til að hætta að reykja. Karlar eru mun fleiri meðal þeirra sem fara til hjartalækna, þvagfærasérfræðinga og blóðmeinafræðinga. Þarna er margt sem kallar á frekari rannsóknir t.d. þessi mikli kynjamunur í gigtsjúkdómum. Hvað býr þar að baki? Mikið og margfalt vinnuálag eða skyldi ofbeldi gegn konum leika þar stórt hlutverk? Rannsóknir hafa sýnt að ofbeldi, sérstaklega kynferðisofbeldi, hefur gríðarleg áhrif á andlega og líkamlega heilsu og er sannarlega lýðheilsumál. 

Hér má lesa samantektina