Opinn fundur um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs

Karlar upplifa árekstra þegar vinnan rekst á við fjölskylduna en konur þegar fjölskyldan rekst á við vinnuna. Þetta er eitt af því sem fram kom á opnum fundi um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs sem haldinn var á Akureyri föstudaginn 12. apríl sl.
Fjöldi áhugaverðra fyrirlestra var í boði þar sem meðal annars var fjallað um kynbundna verkaskiptingu á Íslandi og hvernig fyrirtæki og stofnanir geta komið á móts við starfsfólk sitt til að skapa fjölskylduvænni vinnustað. Sveitarfélögin gegna líka veigamiklu hlutverki sem veitendur þjónustu þegar kemur að samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Þannig geta sveitarfélögin haft töluverð áhrif með því að skipuleggja þjónustu sína með þarfir vinnandi fólks í huga.

Tilraunaútgáfu af bæklingum fyrir stjórnendur og launafólk var dreift meðal fundargesta. Annar bæklingurinn er ætlaður stjórnendur og inniheldur nokkra punkta um hvernig stuðla megi að fjölskylduvænum vinnustað. Hinn bæklingurinn er ætlaður starfsfólki og því bent á ýmsar leiðir til að ná betra jafnvægi í fjölskyldu- og atvinnulífi.