Ráðstefna 29. ágúst um reynslu af samvinnu í heimilisofbeldismálum á Íslandi

Þann 29. ágúst verður haldin alþjóðlega ráðstefnan Breaking the Silence - Conference on how Icelanders United Against Domestic Violence og er hún öllum opin.

Hér má finna dagskrá ráðstefnunnar

Hér verður hægt að fylgjast með ráðstefnunni í beinni útsendingu.

Á undanförnum árum hefur samvinna í heimilisofbeldismálum fest sig í sessi á Íslandi og hefur sannað gildi sitt í baráttunni gegn ofbeldi í nánum samböndum. Samvinnan miðar að því að samræma og bæta verklag lögreglu, félagsþjónustu, barnaverndar og félagasamtaka í slíkum málum og stuðla að aukinni þekkingarmiðlun í málaflokknum meðal fagfólks sem starfar með fólki. Þetta verklag sem á rætur sínar að rekja  til tilraunaverkefnis frá árinu 2013 milli Lögreglunnar á Suðurnesjum og félagsþjónustunnar í lögregluumdæminu um breytt verklag og aukna samvinnu. Ríkislögreglustjóri hefur nú gert verklagið að sínu og er öllum lögregluembættum hér á landi gert skylt að vinna með þessum hætti. Innleiðing verklagsins er langt komin og hefur það einnig vakið athygli út fyrir landsteinana.

Ráðstefnan er lokaviðburður verkefnisins Byggjum brýr – Brjótum múra – Samvinna í heimilisofbeldismálum. Jafnréttisstofa hlaut styrk úr áætlun Evrópusambandsins um réttindi, jafnrétti og borgararétt til að standa straum að verkefninu en það er unnið í samstarfi við dómsmálaráðuneytið, velferðarráðuneytið, Ríkislögreglustjóra, Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, Lögregluna á Norðurlandi eystra, Lögregluna á Suðurnesjum, Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ.

Megininntak verkefnisins er að miðla reynslu af aðferðum sem hafa skilað árangri í baráttunni gegn ofbeldi í nánum samböndum, mynda tengsl á milli aðila, bjóða upp á fræðslu og standa að vitundarvakningu fyrir alla landsmenn. Vitundarvakningin ber titilinn Þú átt VON og er lögð áhersla á að sýna þolendum ofbeldis að það er von á betra lífi. Frekari upplýsingar um verkefnið er að finna á jafnretti.is/von.

Við hvetjum ykkur til að dreifa upplýsingum um ráðstefnuna til aðila sem þið teljið að hefðu gagn og áhuga á henni. Allar frekari upplýsingar er að finna hér.