Ráðstefna um jafnrétti á norðurslóðum

Utanríkisráðuneytið, Jafnréttisstofa, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Norðurslóðanet Íslands og Norræna ráðherranefndin bjóða til alþjóðlegrar ráðstefnu um jafnréttismál á norðurslóðum á Akureyri dagana 30.-31. október næstkomandi.

[For English]

Á ráðstefnunni verða aðstæður kvenna og karla á norðurheimskautssvæðinu skoðaðar í víðum skilningi og athyglinni m.a. beint að aðgangi og yfirráðum auðlinda, þátttöku kynjanna í ákvarðanatöku og stjórnmálum, byggðaþróun, öryggi og almennri velferð. Tilgangurinn er að stuðla að víðtækri, markvissri samræðu um jafnréttismál samtímans og beina um leið sjónum að áskorunum sem framtíðin kann að bera í skauti sér m.t.t. þeirra loftslags- og umhverfisbreytinga sem eru að verða og í samhengi við efnahags- og félagslega þróun ríkja og samfélaga á norðurslóðum.
Fulltrúar stjórnvalda, fræðasamfélagsins og annarra hagsmunaaðila, m.a. úr viðskiptalífinu, auðlindastjórnun, og félagasamtökum munu ræða málin. Það er von skipuleggjenda að með ráðstefnunni og ítarlegri samantekt að henni lokinni, verði lagður grunnur að áframhaldandi samstarfi þeirra mörgu hagsmunaaðila sem rannsaka, kenna, miðla og stuðla að jafnrétti kynjanna á norðurslóðum.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra flytur opnunarávarp ráðstefnunnar og mun Tarja Halonen, fyrrverandi forseti Finnlands taka þátt á ráðstefnunni auk fjölmargra sérfræðinga, fulltrúa atvinnulífsins og félagasamtaka.

Ráðstefnan er liður í áherslu utanríkisráðuneytisins á jafnréttismál og nýtur verkefnið stuðnings Norðurskautsráðsins, Norrænu ráðherranefndarinnar, Finnlands, Noregs, Svíþjóðar og Færeyja en skipuleggjendur ráðstefnunnar eru utanríkisráðuneytið, Jafnréttisstofa, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og Norðurslóðanet Íslands.

Ráðstefnan fer fram í Menningarhúsinu Hofi. Allar nánari upplýsingar um dagskrá, fyrirlesara og skráningu má finna á vefsíðu ráðstefnunnar www.arcticiceland.is/genderequality, einnig má hafa samband við Emblu Eir Oddsdóttur, forstöðumann Norðurslóðanets Íslands, í tölvupósti embla@arcticiceland.is eða í síma 864-5979.