Ráðstefna um karla og karlmennskurannsóknir

Þann 4.-6. júní verður haldin stór Norræn ráðstefna í Reykjavík um karla og karlmennskurannsóknir undir yfirskriftinni: Emerging ideas in masculinity research - Masculinity studies in the North. Ráðstefnan er samstarfsverkefni Norrænu ráðherranefndarinnar á formennskuári Íslands og norræns netverks um karla og karlmennskurannsóknir en þetta er þriðja Norræna rástefnan í þessu samstarfi.
Að þessu sinni hafa verið fengnir tveir heimsfrægir lykilfyrirlesarar sem eru bæði brautryðjendur á sviði karlarannsókna en það eru þau Raewyn Connell professor við Sidney University í Ástralíu og Michael Kimmel prófessor við Stony Brook University í New York. 

Koma þessara fræðimanna hefur vakið mikla athygli og áhuga á ráðstefnunni en á ráðstefnunni verða 35 málstofur með yfir 140 erindum samanlagt. Fræðimennirnir sem koma til landsins til að taka þátt í ráðstefnunni eru frá fjórum  heimsálfum og eru efnistökin fjölbreytt. Rætt verður um fjölbreyttar birtingarmyndir karlmennskunnar, unga menn, karlmannslíkamann, feður og föðurhlutverkið, heilsu, listir, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs, ofbeldi, hlutverk karla í jafnréttisbaráttunni, karla í mannkynssögunni og fötlun svo eitthvað sé nefnt til sögunnar.