Ráðstefna um karla og karlmennskurannsóknir

Dagana 4.-6. júní fór fram alþjóðleg ráðstefna um karla og karlmennskurannsóknir í Háskóla Íslands. Ráðstefnan, sem var afar vel sótt,  var skipulögð af NFMM - Norrænu netverki um karlarannsóknir, Jafnréttisstofu, RIKK - Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands og MARK - Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna. Ráðstefnan er sú þriðja í röðinni í Norrænu samstarfi um karla- og karlmennsku og einn stærsti viðburðurinn á sviði jafnréttismála á formennskuári Íslands í Norræna ráðherraráðinu, árið 2014.
Markmið ráðstefnunnar, sem í ár bar heitið Emerging ideas in masculinity research – Masculinity studies in the North, var að skapa vettvang til að ræða kenningar ásamt þróun og stöðu rannsókna í karla og karlarannsóknum. 

Lykilfyrirlesarar ráðstefnunnar voru tveir helstu sérfræðingar heims á sviði karla og karlmennskurannsókna, þau Dr. Raewyn Connell og Dr. Michael Kimmel. 

Raewyn Connell Prófessor við Háskólann í Sydney Ástralíu fjallaði um þróun rannsókna og ræddi framtíð fagsins í ljósi útbreiðslu þekkingar á tímum hnattvæðingar. Connell er einn fremsti fræðimaður innan félagsvísinda í Ástralíu og hefur á ferli sínum verið áhrifamikil við mótun kynjafræðinnar.

Bandaríski félagsfræðingnum Prófessor Michael Kimmel er stofnandi og ritstjóri tímaritsins Men and Masculinities og höfundur fjölda bóka á sviðum karla- og karlmennskurannsókna. Kimmel hefur verið afar vinsæll fyrirlesari síðari ár vegna rannsókna á tengslum hatursorðræðu og kvenfyrirlitningar. Í erindi sínu sagði hann meðal annars frá rannsóknum á viðhorfum bandarískra og skandínavískra karla sem aðhyllast stjórnmálaskoðanir sem í stjórnmála- og félagsfærði teljast öfgafullar.

 
Alls voru haldnar 35 málstofur og á þeim voru flutt um 150 erindi á ýmsum ólíkum sviðum rannsókna,  allt frá áhrifum kyns í poppmenningu og umönnun til ofbeldisorðræðu og þátttöku karla í jafnréttismálum.