Ráðstefna um kyn og völd á Norðurlöndum

Norræna embættismannanefndin um jafnréttismál og norræna kvenna- og kynjarannsóknastofnunin (NIKK) bjóða til ráðstefnu um kyn og völd á Norðurlöndum á Grand Hótel Reykjavík dagana 18.-19. nóvember 2009. Ráðstefnan hefst að kvöldi 18. nóvember í Háskóla Íslands með lykilfyrirlestri Anneli Jäätteenmäki
en hún situr á Evrópuþinginu og er fyrrverandi forsætisráðherra Finnlands. Næsta dag,
þann 19. nóvember, verða flutt erindi þar sem staðan innan stjórnmála og atvinnulífs Norðurlandanna
og sjálfsstjórnarsvæðanna verður greind.

Á ráðstefnunni verða kynntar niðurstöður rannsóknarverkefnisins Kyn og völd, sem er unnið af NIKK og breiðum hópi norrænna fræðimanna, að beiðni ráðherranefndar um jafnréttismál.

Rannsóknir varðandi kyn og völd snúast fyrst og fremst um tvö svið. Annars vegar er safnað saman upplýsingum um kyn og völd í stjórnmálum og þær greindar, en hins vegar er valdakerfi atvinnulífsins skoðað út frá kynjasjónarmiði.

Fræðimannahópurinn mun greina upplýsingar um kosningar til norrænu þjóðþinganna, forsetakosningar á Íslandi og í Finnlandi, kosningar til Evrópuþingsins í ESB-löndunum og sveitarstjórnarkosningar á öllum Norðurlöndunum. Ríkisstjórnir og stjórnmálaflokkar verða skoðaðir, sem og stuðningur við kvennahreyfingar stjórnmálaflokkanna og aðra kvennahópa.

Þá mun hópurinn einnig safna upplýsingum um fyrirtæki í kauphöll á árunum 1996-2005 og kanna fjölda karla og kvenna í sætum stjórnarformanna, stjórnarmanna og æðstu stjórnenda. Það sama á við um ríkisfyrirtæki sem tengjast atvinnulífinu, fyrir árin 2000 og 2007, eins og ríkisbankana.

Á ráðstefnunni í Reykjavík verður skýrsla hópsins rædd, með þátttöku kvenna og karla með reynslu af stjórnmálum og atvinnulífinu. 

Ráðstefnunni lýkur með pallborðsumræðum með þátttöku fólks úr stjórnmálum og atvinnulífi, auk fræðimanna.

Ráðstefnan er öllum opin og er þátttaka ókeypis.

Boðsbréf og frekari upplýsingar um ráðstefnuna má finna hér

Skráning á ráðstefnuna fer fram á vefsíðunni: http://www.yourhost.is/genderandpower2009/registration.html