Reykjavíkurborg nær árangri í baráttunni við launamun

Ómálefnalegur launamunur á dagvinnulaunum borgarstarfsmanna er hverfandi, samkvæmt rannsókn sem kynnt verður á opnum kynningarfundi hjá Reykjavíkurborg í dag. Rannsóknin beindist að þróun launamunar hjá Reykjavíkurborg í ljósi þeirrar stefnu borgarinnar að ná niður ómálefnalegum launamun á milli hópa, svo sem kynja, faghópa og stéttarfélaga. Reykjavíkurborg hefur unnið að því undanfarin ár að eyða ómálefnalegum launamun og var sjónum sérstaklega beint að því í rannsókninni. Rannsóknina vann Anna Borgþórsdóttir Olsen, MS í hagfræði. Skoðaður var launamunur starfsmanna í fullu starfi í október 1999, 2001, 2003, 2005 og 2007, óháð stéttarfélagi, vinnustað eða sviði.

Rannsóknin leiðir í ljós að dagvinnulaunamunur kynjanna hefur lækkað úr 15% í 4% frá 1999 til 2007. Meginskýringin á þeim mun er málefnalegur, samkvæmt rannsókninni, og felst í því að konur eru að meðaltali með lægri innbyrðis röðun til starfa. Heildarlaunamunur hefur farið úr 14% í 9% á sama tíma. Heildarlaunamunur er 7% árið 2007, þegar tekið er tillit til innbyrðis röðunar starfa. Ekki er ljóst hvort sá munur er málefnalegur eða ómálefnalegur.

Í frétt á vef Reykjavíkurborgar segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, að launakönnunin sýndi svo ekki væri um villst að sú stefna Reykjavíkurborgar að setja jafnrétti í öndvegi skilaði árangri. „Reynsla Reykjavíkurborgar sýnir fram á að til eru aðferðir til að vinna gegn launamun kynjanna með afgerandi og árangursríkum hætti.“

Borgarráð fagnaði í sameiginlegri bókun sinni í vikunni þeirri niðurstöðu rannsóknarinnar að enginn málefnalegur launamunur sé í dagvinnulaunum starfsfólks borgarinnar. Telur borgarráð sú áhersla sem Reykjavíkurborg hafi til margra ára lagt á jafnrétti kynjanna og aðgerðir til að eyða launamun skili sér með þessum árangri.

Opinn kynningarfundur verður um launakönnunina í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur kl. 15 í dag, föstudaginn 7. nóvember. Nánar má lesa um rannsóknina hér.