Samantekt frá afmælisráðstefnu Jafnréttisstofu

Efri röð frá vinstri: Hjalti Ómar Ágústsson, Martha Lilja Olsen, París Anna Bergmann, Rannveig Sigur…
Efri röð frá vinstri: Hjalti Ómar Ágústsson, Martha Lilja Olsen, París Anna Bergmann, Rannveig Sigurvinsdóttir. Neðri röð frá vinstri: Drífa Snædal, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Jón Ingvi Ingimundarson.

Þann 15. september 2025 hélt Jafnréttisstofa upp á 25 ára afmæli sitt með ráðstefnu. Meginþemað var kynbundið ofbeldi, með pallborði þar sem áhersla var lögð á stafrænt kynbundið ofbeldi. Þátttakendur á ráðstefnunni voru Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra og ráðherra jafnréttismála, dr. Rannveig Sigurvinsdóttir, dósent við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík, Drífa Snædal, talskona Stígamóta, París Anna Bergmann, menntaskólanemi og aktívisti og Jón Ingvi Ingimundarson, verkefnastjóri hjá Jafnréttisstofu. Hjalti Ómar Ágústsson, sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu, stýrði pallborði og Martha Lilja Olsen, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu, hélt opnunarávarp.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hélt erindi sem hún nefndi „ferðalag kvenna frá jaðrinum inn að miðju. Áskoranir og árangur“, þar sem hún rakti sögu kvenréttindabaráttu á Íslandi frá 1975. Einnig fór hún yfir stöðu jafnréttismála á Íslandi í dag og varaði m.a. við afturför í jafnréttisbaráttu kvenna. Hún vakti athygli á að íhaldssöm viðhorf séu að ryðja sér aftur til rúms innan samfélagsins, t.a.m. sú hugmynd að staða kvenna sé innan heimilisins. Jafnframt minnti hún á mikilvægi grasrótarstarfsemi og frjálsra félagasamtaka, þar sem það voru femínistar sem knúðu fram breytingar á samfélaginu og leiddu jafnréttisbaráttuna. Það þarf að rækta grasrótina til að vinna gegn afturför.

Í pallborði var umræða um rannsóknir á stafrænu kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og hvernig þær sýna að afleiðingar þess eru sambærilegar við ofbeldi í raunheimum. Þolendur upplifa brot á vilja sínum, kvíða, þunglyndi og jafnvel sjálfsskaða. Óvissa um mögulega dreifingu myndefnis magnar upp skaðann og skortur á ábyrgð og afleiðingum fyrir gerendur gerir stöðuna alvarlegri. Einnig var tekin fyrir samfélagsleg skynjun á ofbeldi, þörfin fyrir fræðslu og mikilvægi stuðnings fyrir þolendur stafræns ofbeldis.

Rannveig S. Sigurvinsdóttir benti á að stór hluti ungmenna hafi upplifað þrýsting til að deila myndum eða fengið sendar óumbeðnar myndir. Hún vinnur að verkefni sem notar sýndarveruleika til að undirbúa þolendur fyrir dómssal, sem hefur reynst draga úr kvíða.

Jón Ingvi fjallaði um nýja reglugerð Evrópusambandsins um gervigreind í meistararitgerð sinni. Niðurstöður hans sýna að reglugerðin nær ekki utan um stafrænt kynferðisofbeldi og djúpfölsun, sem kallar á sértæka löggjöf og alþjóðlegt samstarf. Hann lagði áherslu á að nær allt djúpfalsað efni sé kynferðislegt og að ungar konur og hinsegin einstaklingar séu helstu þolendur.Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra og Drífa Snædal, talskona Stígamóta

Drífa Snædal undirstrikaði að mörk milli ofbeldis á netinu og í raunheimum séu óljós. Stafrænt ofbeldi geti orðið langvinnara vegna þess að myndefni lifir áfram án samþykkis þolanda. Hún lagði áherslu á mikilvægi forvarna, fræðslu og þróunar ólíkra viðbragðsleiða gagnvart gerendum.

París Anna lýsti reynslu ungmenna þar sem þrýstingur á að senda myndir og dreifing þeirra án samþykkis er hluti af daglegu lífi. Hún lagði áherslu á fræðslu um stafrænt öryggi, ný úrræði fyrir þolendur og að tryggja öryggi barna og ungmenna í stafrænum heimi.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir fjallaði um svokallaða „norræna þversögn“ (e. nordic paradox), þar sem jafnrétti kynjanna er almennt mikið en kynbundið ofbeldi engu að síður útbreitt. Hún lagði áherslu á að þolendur verði að fá viðurkenningu og að brot hafi raunverulegar afleiðingar, en jafnframt að ólík nálgun sé nauðsynleg gagnvart ólíkum hópum gerenda.

Í pallborðsumræðum kom fram að samfélagið býr yfir takmörkuðum lagagrundvelli til að bregðast við djúpfölsun og stafrænu kynferðisofbeldi. Þrátt fyrir það má finna dæmi erlendis um áhrifaríkar aðgerðir þar sem gerendur voru dregnir til ábyrgðar. Þá var einnig rætt um jafningjaþrýsting, ábyrgð samfélagsins og skort á trausti til réttarkerfisins meðal þolenda.

Heildarniðurstaðan er sú að stafrænt kynbundið og kynferðislegt ofbeldi er alvarlegt samfélagsmein. Nauðsynlegt er að efla löggjöf og alþjóðlegt samstarf, styrkja úrræði fyrir þolendur, tryggja ábyrgð gerenda og byggja upp forvarnir. Samhygð, virðing og viðurkenning á alvarleika afleiðinga eru lykilatriði í baráttunni fram undan.