Sameinuðu þjóðirnar meta stöðu jafnréttismála á Íslandi

Starfsfólk Jafnréttisstofu átti í síðustu viku fund með starfshópi Sameinuðu þjóðanna um mismunun gagnvart konum í lögum og framkvæmd.
Starfshópurinn hefur frá komu sinni til landsins þann 16. maí hitt embættismenn í ráðuneytum og opinberum stofnunum en einnig fulltrúa ýmissa félagasamtaka til að afla sér upplýsinga um hvernig staða jafnréttismála er hér á landi. Starfshópurinn hefur sérstakan áhuga á að skoða lög, lagaumbætur og stefnumál sem ríkisstjórnin hefur komið í framkvæmd til að efla réttindi kvenna og stuðla að jafnrétti kynjanna. Hópurinn mun í framhaldinu leggja mat á hvaða áhrif fjármálahrunið árið 2008 hafði á réttindi kvenna og verða niðurstöðurnar kunngjörðar í skýrslu í júní 2014.