Samráðsfundur með jafnlaunanefnd frá Noregi

Norsk jafnlaunanefnd, eða likelönnskommisjon, er í heimsókn hjá félagsmálaráðuneytinu og verður samráðsfundur með nefndinni haldinn í Norræna húsinu á morgun. Nefndin var skipuð í júní 2006 með vísan til þess að samkvæmt nýlegum rannsóknum og úttektum hafi ekki orðið miklar breytingar á launamun kynjanna í Noregi eftir árið 1985.

Heimsókn jafnlaunanefndarinnar norsku byggist á norrænu samstarfi á sviði jafnréttismála. Nefndin á meðal annars að kanna hvaða þættir eru líklegir til að draga úr launamun kynjanna og skila niðurstöðum og tillögum til norsku ríkisstjórnarinnar 1. mars 2008. Efnt verður til samráðsfundar með nefndinni í Norræna húsinu föstudaginn 25. maí og hefst fundurinn kl. 9. Dagskrá fundarins má finna hér.