Samstarf Jafnréttisstofu og félagasamtakanna Kongres Kobiet frá Póllandi

Sterkari saman (e. Strong together) er samstarfsverkefni Jafnréttisstofu og félagasamtakanna Kongres Kobiet (e. The Congress of Women) frá Póllandi. Markmið samstarfsins er tvíþætt. Annars vegar að auka þekkingu á birtingarmyndum kynjanna í stjórnmálum og fjölmiðlum og hins vegar að stuðla að aukinni sérfræðikunnáttu á kynjajafnrétti almennt með því meðal annars að kynna og nota verkfæri kynjasamþættingar.

Einn liður í verkefninu er tveggja daga vinnustofa Jafnréttisstofu fyrir pólska sérfræðinga sem haldin var dagana 28. og 29. janúar sl. í Varsjá. Það voru þær Ingibjörg Elíasdóttir og Bryndís Elfa Valdemarsdóttir sem leiddu vinnustofuna fyrir Jafnréttisstofu.

Þátttakendur á námskeiðinu komu frá stofnunum, háskólum og félagasamtökum. Vinnustofan hófst á kynningu á stöðu jafnréttismála á Íslandi, lagalegu umhverfi og áherslum. Í framhaldinu var síðan lögð áhersla á miðlun þekkingar og þeirra aðferða sem stuðst er við í jafnréttisstarfi á Íslandi. Mikil og góð umræða skapaðist meðal þátttakenda sem virtust afar ánægðir með að fá tækifæri til að kynnast jafnréttismálum á Íslandi og að sama skapi fengu þær Ingibjörg og Bryndís innsýn í stöðu mála í Póllandi, sem er ekki síst mikilvægt í samstarfi sem þessu.