Samþætting náms og einkalífs: Fjölskyldustefna fyrir alla?

Mánudaginn 9. mars mun Guðný Björk Eydal, dósent í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, fjalla um samþættingu náms og einkalífs. Erindið er hluti af fyrirlestraröð jafnréttisnefndar Háskóla Íslands um fjölskyldumál og jafnrétti. Nánar um erindi Guðnýjar:

Samþætting náms og einkalífs: Fjölskyldustefna fyrir alla?
Í erindinu verður rætt um hvort fólki séu sköpuð skilyrði til að samþætta barneignir, menntun og atvinnuþátttöku. Fjallað verður um niðurstöður rannsóknar á stefnu stjórnvalda hérlendis og í nágrannalöndunum og spurt hvort hún hafi áhrif á sampil þessara þátta.

Í fyrirlestraröðinni er fjallað um samtvinnun fjölskyldu- og jafnréttismála frá ýmsum sjónarhornum, og hvernig karlar og konur, stofnanir og fyrirtæki geta – og hafa – tekist á við þann vanda sem fylgir því að taka þátt í atvinnulífinu eða mennta sig, samhliða því að eiga og byggja upp gott fjölskyldulíf. í fyrirlestrunum er m.a. horft til þeirra breytinga sem átt hafa sér stað að undanförnu í efnahags-, atvinnu- og menntamálum, og hvernig slíkar breytingar geta haft áhrif á fjölskyldulíf fólks.

Ólafur Páll Jónsson, lektor í heimspeki á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, mun stýra umræðum að loknu erindi Guðnýjar.

Hér að neðan er að finna dagskrána í heild, en allir fyrirlestrarnir eru í Norræna húsinu og hefjast kl. 12. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.