Segjum nei við ofbeldi - Nýtt átak á vegum UNIFEM á Íslandi

Undirskriftaátakið Segjum NEI við ofbeldi gegn konum var opnað á heimasíðu UNIFEM á Íslandi í dag. Utanríkisráðherra, samgönguráðherra og heilbrigðisráðherra undirrituðu áskorunina fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að viðstöddum fjölmiðlum. Átakið er hvatning til ríkisstjórna heims að grípa til aðgerða til að binda endi á ofbeldi gegn konum. Allir Íslendingar eru hvattir til þess að skrifa undir.

Í nóvember síðastliðnum fóru höfuðstöðvar UNIFEM af stað með átakið Say NO to Violence against Women í samstarfi við velgjörðarsendiherra sinn Nicole Kidman. Það átak mun standa yfir í eitt ár. Landsnefnd UNIFEM á Íslandi opnaði í dag sérstaka íslenska heimasíðu tileinkaða átakinu til þess að hvetja Íslendinga til þess að ljá málefninu lið og skrifa nafn sitt undir áskorun til ríkisstjórna heims.

Markmið átaksins er að fá sem flesta Íslendinga til þess að skrifa undir áskorunina. Átakið mun standa yfir í 12 vikur og lýkur þann 6. nóvember næstkomandi. Þá munu undirskriftirnar verða sendar formlega til höfuðstöðva UNIFEM í New York, en heimsátakinu lýkur þann 25. nóvember á baráttudegi Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi.

Undirskriftalistann er að finna á heimasíðu UNIFEM á Íslandi.