SEXAN stuttmyndasamkeppni fyrir nemendur í 7. bekk.

Neyðarlínan, í samstarfi við Jafnréttisstofu, Ríkislögreglustjóra, Menntamálastofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, Barna- og fjölskyldustofu, Jafnréttisskóla Reykjavíkur, Fjölmiðlanefnd og RÚV, efnir til stuttmyndasamkeppni fyrir 7. bekki grunnskóla landsins sem verður haldin í ársbyrjun 2023. Stafrænn fræðslufundur um Sexuna fyrir kennara, deildarstjóra og aðstandendur nemenda á miðstigi, og aðra sem hafa áhuga á að kynna sér málefnið, verður haldinn fimmtudaginn 8. desember kl. 14. Hlekk á fræðslufundinn má finna hér.

Keppninni, sem hefur hlotið nafnið SEXAN, er ætlað að fræða ungt fólk um mörk og samþykki en einnig um tilurð, birtingarmyndir og afleiðingar stafræns ofbeldis.

Fyrirkomulag Sexunnar er einfalt. Þátttakendur fá fræðslu og tækifæri til að búa til og skila inn tilbúinni stuttmynd (hámark 3 mínútur) á tímabilinu 10.-21. janúar 2023. Viðfangsefni keppninnar eru fjórar birtingarmyndir stafræns ofbeldis: samþykki, nektarmynd, tæling eða slagsmál ungmenna. Þátttakendur hafa frjálsar hendur með handritagerð, framkvæmd og eftirvinnslu. Hver skóli má senda að hámarki þrjár myndir í keppnina og úr þeim mun dómnefnd velja þrjár stuttmyndir til sýningar á vef RÚV í viku sex, kynfræðsluvikunni 6.-10. febrúar nk. Við hvetjum ykkur eindregið til að taka þátt og festa þannig viðburðinn í sessi sem árlegan, skapandi vettvang til að takast á við stafrænt ofbeldi á meðal ungmenna.