Skýrsla um kvenfanga sýnir mikilvægi kynjasamþættingar

Mynd eftir Kari Shea af Unsplash
Mynd eftir Kari Shea af Unsplash

Umboðsmaður Alþingis hefur birt þemaskýrslu um aðbúnað og aðstæður kvenna í fangelsum á Íslandi. Skýrslan sýnir að „fyrirkomulag við afplánun kvenna hér á landi er almennt til þess fallið að gera stöðu þeirra lakari samanborið við karlfanga.“

Jafnréttisstofa fagnar útgáfu skýrslunnar og mikilvægi upplýsinganna sem þar er að finna. Skýrslan dregur meðal annars fram fjölbreyttan hóp og sérstöðu kvenfanga. Fjallað er um aðbúnað hópsins í fangelsum sem og virkni, meðferðarstarf og endurhæfingarúrræði. Sérstaklega er fjallað um öryggi kvenna og heilbrigðisþjónustu og umboðsmaður beinir þeim tilmælum til Fangelsismálastofnunar að útfæra formlega viðbragðsáætlun gegn kynferðisofbeldi og kynferðislegri áreitni. Þannig dregur umboðsmaður bæði fram fjölbreytni kvenfanga og margar hliðar á þjónustunni við þá.

Skýrsla umboðsmanns er glöggt dæmi um hve mikilvægt er að greina þjónustuþætti innan hins opinbera, nýta kyngreindar upplýsingar um notendur og byggja ákvarðanir um þjónustu og nýtingu fjármuna á slíkum greiningum. Sérstaklega skal minnt á lagaskyldu opinberra aðila sem eiga í öllum tilfellum að samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið í stefnumótun og áætlanagerð. Í því felst að þeim ber að tryggja jafnrétti og jafna meðferð gagnvart þjónustuþegum (viðskiptavinum, skjólstæðingum, umbjóðendum og öðrum). Jafnréttisstofa minnir sérstaklega á skyldu aðila til að vinna gegn fjölþættri mismunun, þ.e. gæta sérstaklega að þeim einstaklingum sem eru í viðkvæmri stöðu af fleiri en einni ástæðu og þá skal sérstaklega gætt að stöðu fólks með hlutlausa skráningu kyns.