Staða kynjanna jöfnust hjá Akureyrarbæ

Akureyrarbær er það sveitarfélag á Íslandi þar sem staða kynjanna er hvað jöfnust, samkvæmt niðurstöðum Jafnréttisvogarinnar, Evrópuverkefnis sem stýrt var af Jafnréttisstofu. Þetta kom fram á málþingi sem Jafnréttisstofa stóð fyrir á Hótel KEA í hádeginu í dag. Á málþinginu voru kynntar íslenskar niðurstöður Jafnréttisvogarinnar, en þar var staða jafnréttismála mæld hjá sveitarfélögum í fimm löndum. Á fundinum var meðal annars skýrt frá því hvaða íslensk sveitarfélög standa sig best í jafnréttismálum, miðað við mælikvarða verkefnisins.

Ástæður þess að Akureyrarbær fékk hæstu einkunn eru meðal annars jafnt hlutfall kynjanna í bæjarstjórn og jafnt hlutfall kynjanna í nefndum og ráðum á vegum bæjarins. Auk þess kemur bærinn vel út hvað varðar dagvistun barna á aldrinum 3-5 ára og ágætlega hvað varðar hlutfall kynjanna í íbúafjölda. Þá fær Akureyri stig fyrir það að bæjarstjórinn er kona, þar sem afar fáar konur gegna starfi bæjarstjóra á Íslandi.

Í næstu sætum á eftir Akureyri koma Húnaþing vestra, Stykkishólmsbær, sveitarfélagið Hornafjörður, Ísafjarðarbær og Aðaldælahreppur. Reykjavíkurborg er í sjöunda sæti og þar á eftir koma Garðabær, Kópavogur og Hafnarfjörður.

Jafnréttisvogin, eða Tea for two eins og verkefnið heitir á ensku, var styrkt af Evrópusambandinu. Tilgangur verkefnisins var að gera stöðu jafnréttismála í sveitarfélögum sýnilega og aðgengilega almenningi. Þátttakendur í verkefninu voru, auk Íslands, Búlgaría, Finnland, Grikkland og Noregur. Niðurstöðurnar eru birtar á myndrænan hátt á heimasíðu verkefnisins.


Lista yfir röð íslensku sveitarfélaganna má skoða hér og einnig er hægt að sjá heildarniðurstöður verkefnisins á heimasíðu þess.