Staðall búinn til um launajafnrétti kynjanna

Félags- og tryggingamálaráðherra, Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa farið þess á leit við Staðlaráð Íslands að það hafi umsjón með gerð staðals sem notaður verði til að sannreyna hvort launa- og starfsmannastefna stofnana og fyrirtækja samræmist stefnu um launajafnrétti kynja og jafnrétti við ráðningar og uppsagnir. Atvinnurekendur sem uppfylla skilyrði staðalsins eiga síðan að geta fengið formlega vottun fyrir því að launa- og starfsmannastefna þeirra samræmist lögum um jafnrétti kynjanna.

Samkomulag um þetta var undirritað8 af Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra, Grétari Þorsteinssyni, fráfarandi forseta ASÍ og Hannesi G. Sigurðssyni, aðstoðarframkvæmdastjóra SA. Í ávarpi sagði Hannes að um mikilvæga nýsköpun í jafnréttismálum væri að ræða þar sem Íslendingar tækju forystu um þróun leiða í jafnréttismálum sem ætti sér ekki fordæmi annars staðar í heiminum.

Í lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem samþykkt voru 18. mars síðastliðinn er ákvæði til bráðabirgða um að félags- og tryggingamálaráðherra skuli, í samvinnu við samtök aðila vinnumarkaðarins, sjá til þess að þróað verði sérstakt vottunarkerfi á framkvæmd stefnu um launajafnrétti og framkvæmd stefnu um jafnrétti við ráðningar og uppsagnir. Bókun sama efnis fylgdi kjarasamningum landssambanda Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins hinn 17. febrúar síðastliðinn.

Viðræður hafa átt sér stað að undanförnu milli fulltrúa félags- og tryggingamálaráðuneytisins, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um framkvæmd bráðabirgðaákvæðis laganna. Niðurstaðan varð sú að fela Staðlaráði Íslands umsjón með gerð staðalsins og er miðað við að unnt verði að taka hann í notkun í byrjun árs 2010.

Vonir standa til þess að staðallinn verði atvinnurekendum stuðningur og hvatning til þess að uppfylla ákvæði laga um jafnan rétt karla og kvenna. Þeir muni sjá ávinning í því að fela óháðum vottunaraðilum úttekt á launa- og starfsmannastefnu sinni á kerfisbundinn hátt því þannig verði hafið yfir allan vafa að þeir uppfylli ákvæði laganna.