Staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni – góðverk án vandkvæða?

Mikið hefur verið fjallað um staðgöngumæðrun í fjölmiðlum og víðar undanfarnar vikur. Á Jafnréttistorgi í Háskólanum á Akureyri, miðvikudaginn 2. febrúar kl. 12:00, munu Sigurður Kristinsson, siðfræðingur og forseti hug- og félagsvísindasviðs HA og Ingibjörg Elíasdóttir, lögfræðingur á Jafnréttisstofu, ræða nokkur álitaefni tengd staðgöngumæðrun. Fjallað verður um helstu siðferðileg álitaefni sem tengjast staðgöngumæðrun. Einnig verður komið inn á þingsályktunartillögu sem lögð hefur verið fyrir Alþingi um að semja frumvarp til laga um staðgöngumæðrun, ásamt því að skoða hvernig málið horfir við út frá sjónarmiðum um kynjajafnrétti.

Sigurður Kristinsson er með doktorspróf í heimspeki frá Cornell háskóla í Bandaríkjunum. Hann hefur starfað við Háskólann á Akureyri í rúm tíu ár við kennslu, rannsóknir og stjórnun, en kenndi áður við Missouri-háskóla eftir að hann lauk prófi. Sigurður hefur sérhæft sig í siðfræði og hefur bæði í kennslu og fræðistörfum fjallað um siðferðileg álitamál samtímans.

Ingibjörg Elíasdóttir er lögfræðingur og fjölmiðlafræðingur og hefur starfað á Jafnréttisstofu undanfarin þrjú ár. Hún er auk þess stundakennari við Háskólann á Akureyri. Áður en hún hóf störf á Jafnréttisstofu var hún kennari við Háskólann á Akureyri og hún hefur einnig starfað sem lögmaður á Akureyri, auk þess að kenna við Háskólann á Bifröst og sinna stundakennslu við Háskóla Íslands.

Jafnréttistorgið verður í stofu N102.