Stígamótaviðurkenningar veittar

Á föstudaginn var einn af bestu dögum ársins á Stígamótum. Starfsfólk afhenti Stígamótaviðurkenningarnar í áttunda sinn. Viðurkenningarhafar hafa alllir lagt til mikilsverðan skerf í baráttunni fyrir réttlæti og gegn kynferðisofbeldi. Í ár voru eftirfarandi aðilar heiðrarðir:

Þakklætisviðurkenning Stígamóta 2015
Halldóra Halldórsdóttir

Hugrekkisviðurkenning Stígamóta 2015
Kristín Jóna Þórarinsdóttir

Hugrekkisviðurkenning Stígamóta 2015
Hanna Þorvaldsdóttir

Réttlætisviðurkenning Stígamóta 2015
Alma Ómarsdóttir 

Sannleiksviðurkenning Stígamóta 2015
Kamila Modzelewska

Sannleiksviðurkenning Stígamóta 2015
Ásdís Viðarsdóttir 

Réttlætisviðurkenning Stígamóta 2015
Elsku stelpur
Vinningsatriði Hagaskóla í Skrekk 2015

Frelsisviðurkenning Stígamóta 2015
Free the nipple á Íslandi

Sýnileikaviðurkenning Stígamóta 2015
Framlag til Beauty Tips byltingarinnar

Grasrótarviðurkenning Stígamóta 2015
Brynhildur Yrsa Valkyrja Guðmundsdóttir

Fjölmiðlaviðurkenning Stígamóta 2015
HæpiðRökstuðningur: 

Þakklætisviðurkenning Stígamóta 2015
Halldóra Halldórsdóttir
Á þeim tuttugu og fimm árum sem Stígamót hafa starfað hafa ansi margir tekið þátt í starfinu, bæði starfskonur, leiðbeinendur og grasrótarfólk. Sú sem lengst allra hefur starfað sem ráðgjafi hjá Stígamótum er Dóra. Hún hefur þar að auki komið inn í flesta sjálfshjálparhópana okkar undanfarin tuttugu ár með listmeðferð og fengið fólk til þess að skoða eigið líf í nýju ljósi. Það er notalegt til þess að vita að hún hefur haft góð áhrif á líf fjölda fólks með innsæi sínu, þekkingu, reynslu, greind,samkennd og vel slípaðri réttlætiskennd. 

Dóra fer gjarnan eftir eigin reglum sem engu okkar dettur í hug að setja spurningamerki við. Orð hennar vega þungt þegar farið er yfir erfið mál. Hún getur geðvonskast yfir hlægilegum smáatriðum, er mikill dýravinur og mörg höfum við oft laumað okkur inn til hennar til þess að blása og leita ráða, bæði faglegra og vegna persónulegra mála. 

Hún hefur sannarlega lagt sitt af mörkum til þess að bæta lýðheilsu á Íslandi. Við þökkum henni mikilvægt vinnuframlag og óskum henni velfarnaðar við starfslok.

Hugrekkisviðurkenning Stígamóta 2015
Kristín Jóna Þórarinsdóttir 
Á Stígamótum höfum við undanfarin misseri lagt áherslu á að bæta þjónustu við fatlað fólk. Ofbeldi gegn fötluðum er algengara en gagnvart öðrum þjóðfélagshópum og aðgengi að hjálp er takmarkaðra. Það virðist líka vera erfiðara fyrir fatlað fólk að ná réttlæti í gegnum réttarkerfið, eins og kom skýrt fram í Kastljósþáttum sem sýndir voru 3. og 4. nóvember 2015. 

Kristín Jóna sýndi mikið hugrekki þegar hún kom fram í Kastljósinu og gaf leyfi til þess að sagan hennar yrði sögð. Það varpaði ljósi á óásættanlegt óöryggi fatlaðra og varnarleysi gagnvart þeim sem á þeim vilja brjóta. Finna verður leiðir til þess að fatlað fólk njóti sömu verndar og annað fólk, að það sé tekið alvarlega í réttarkerfinu og að vitnisburður þess sé virtur. Stígamót og Sólstafir þakka Kristínu fyrir mikilvægt framlag í baráttunni fyrir réttlæti.

Hugrekkisviðurkenning Stígamóta 2015
Hanna Þorvaldsdóttir

Á Stígamótum höfum við undanfarin misseri lagt áherslu á að bæta þjónustu við fatlað fólk. Ofbeldi gegn fötluðum er algengara en gagnvart öðrum þjóðfélagshópum og aðgengi að hjálp er takmarkaðra. Það virðist líka vera erfiðara fyrir fatlað fólk að ná réttlæti í gegnum réttarkerfið, eins og kom skýrt fram í Kastljósþáttum sem sýndir voru 3. og 4. nóvember 2015. 

Hanna sýndi mikið hugrekki þegar hún kom fram í Kastljósinu og gaf leyfi til þess að sagan hennar yrði sögð. Það varpaði ljósi á óásættanlegt óöryggi fatlaðra og varnarleysi gagnvart þeim sem á þeim vilja brjóta. Finna verður leiðir til þess að fatlað fólk njóti sömu verndar og annað fólk, að það sé tekið alvarlega í réttarkerfinu og að vitnisburður þess sé virtur. Stígamót þakka Hönnu fyrir mikilvægt framlag í baráttunni fyrir réttlæti.

Réttlætisviðurkenning Stígamóta 2015
Alma Ómarsdóttir 

Íslandssagan hefur löngum gefið skekkta mynd af þjóðinni. Hún hefur mikið til verið kvenmannslaus og veruleiki kvenna hefur legið í þagnargildi. Það var því mikill fengur að heimildamynd Ölmu Ómarsdóttur „Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum“. Þar er varpað ljósi á einhverjar umfangsmestu njósnir sem vitað er að hafi verið stundaðar á Íslandi á fimmta áratug síðustu aldar. Myndin vitnar um gróf mannréttindabrot gagnvart ungum stúlkum sem talið var að væru í samskiptum við erlenda hermenn á Íslandi. Þær voru sviptar sjálfræði, þær voru yfirheyrðar og sendar í læknisskoðanir og áttu sér enga verjendur. Allt að frumkvæði íslenskra stjórnvalda. Þær hafa aldrei fengið afsökunarbeiðni eða viðurkenningu á að hafa verið beittar órétti.

Heimildamynd Ölmu afhjúpar sögu þar sem kynfrelsi kvenna er almenningseign en ekki réttur hverrar konu. Hún er til þess fallin að rétta hlut þeirra sem órétti voru beittar og fyrir það ber að þakka.

Sannleiksviðurkenning Stígamóta 2015
Kamila Modzelewska

Kynferðisofbeldi tekur á sig ótal birtingarmyndir. Ein af þeim eru ofsóknir eða umsátur. Um er að ræða alvarlegt ofbeldi eltihrella sem illa gengur að stöðva. Samfélagið hefur lítið sem ekkert gert til þess að stöðva slíkt ofbeldi, hvort sem það er vilji eða verkfæri sem hefur vantað. Það er óásættanlegt að aðgerðaleysið verði til þess að konur og börn búi við stöðuga og raunverulega ógn. 

Kamila sýndi mikið hugrekki með því að koma fram í Kastljósinu og segja sögu sína. Sú frásögn varð til þess að opna augu margra og vonandi verður hún líka til þess að gert verður átak í að ná utanum umsátursástandið sem of margar konur búa við. Fyrir þessa framgöngu vilja Stígamót þakka.

Sannleiksviðurkenning Stígamóta 2015
Ásdís Viðarsdóttir 

Kynferðisofbeldi tekur á sig ótal birtingarmyndir. Ein af þeim eru ofsóknir eða umsátur. Um er að ræða alvarlegt ofbeldi eltihrella sem illa gengur að stöðva. Samfélagið hefur lítið sem ekkert gert til þess að stöðva slíkt ofbeldi, hvort sem það er vilji eða verkfæri sem hefur vantað. Það er óásættanlegt að aðgerðaleysið verði til þess að konur og börn búi við stöðuga og raunverulega ógn. 

Ásdís sýndi mikið hugrekki með því að koma fram í Kastljósinu og segja sögu sína. Sú frásögn varð til þess að opna augu margra og vonandi verður hún líka til þess að gert verður átak í að ná utanum umsátursástandið sem of margar konur búa við. Fyrir þessa framgöngu vilja Stígamót þakka.

Réttlætisviðurkenning Stígamóta 2015
Elsku stelpur
Vinningsatriði Hagaskóla í Skrekk 2015

Fátt vekur meiri bjartsýni á Stígamótum en valdefldar og sterkar stelpur sem taka sér pláss og nýta það til þess að hafa áhrif á samfélagið. Hagaskólastelpurnar sem unnu árlegu hæfileikakeppni grunnskólanema í Reykjavík Skrekk árið 2015 sýndu okkur með dansi og ljóðinu hennar Unu Torfadóttur að þeim eru allir vegir færir. Þær krefjast jafnréttis og virðingar og sætta sig ekki við órétt. 

Elsku stelpur, áfram með ykkur! Við dáumst að ykkur og hvetjum ykkur til dáða.

Frelsisviðurkenning Stígamóta 2015

Free the nipple á Íslandi

Þegar Adda Þóreyjardóttir Smáradóttir birti mynd af brjóstunum á sér á Twitter kom hún af stað byltingu. Hún stóð föst á því að konur ættu að hafa jafnan rétt og karlar til þess að vera berar að ofan. Hugrekki Öddu varð að sameiningartákni kvenna sem deildu myndum af brjóstum sínum, til að mótmæla óréttlæti og kúgun sem mæta konum. 

Konur og stelpur tóku skilgreiningarvaldið til sín og sögðu að brjóst og geirvörtur væru ekki kynfæri heldur líffæri, sama á hvaða kyni þau væru. Með þessu vildu konur gengisfella hrelliklám, þar sem brjóstamyndir af þeim hafa verið notaðar til að kúga þær og smána á samfélagsmiðlum. Free the nipple varð að átaki sem náði heimsathygli þar sem samtakamáttur og kraftur kvenna náði nýjum hæðum. Fyrir það vilja Stígamót þakka.

Sýnileikaviðurkenning Stígamóta 2015
Framlag til Beauty Tips byltingarinnar

Edda Ýr Garðarsdóttir og Jóhanna Svala Rafnsdóttir tóku Beauty Tips byltinguna skrefinu lengra. Í þeirri byltingu mótmæltu hundruð kvenna þöggun um kynferðisofbeldi með því að deila reynslusögum sínum í lokuðum hópi á Facebook. 
Edda Ýr og Jóhanna Svala útbjuggu forsíðumyndir fyrir samfélagsmiðla með það að markmiði að færa byltinguna út í samfélagið. Facebook og Twitter fylltust af appelsínugulum og gulum blöðruköllum sem táknuðu brotaþola kynferðisofbeldis og aðstandendur þeirra. Kynferðisofbeldi varð þannig sýnilegt í samfélaginu öllu, sem of oft lokar á og vill ekki vita af þessu ofbeldi. 

Brotaþolar risu upp gegn nauðgunarmenningu og neituðu að láta þagga niður í sér. Átakið náði heimsathygli. Myndirnar vöktu fólk til umhugsunar og gáfu skýr skilaboð til samfélagsins um algengi og alvarleika kynferðisofbeldis.

Grasrótarviðurkenning Stígamóta 2015
Brynhildur Yrsa Valkyrja Guðmundsdóttir

Brynhildur er sannkölluð valkyrja sem hefur fundið þann styrk sem brotaþoli býr yfir eftir að hafa lifað af kynferðisofbeldi. Hún hefur nýtt kraftinn til þess að mæta í sjónvarps- og blaðaviðtöl og stundað ýmsan aktívisma í netheimum. Þannig hefur hún mótmælt klámvæðingu og nauðgunarmenningu. Hún fór í sumar á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum og kannaði úrræði fyrir brotaþola kynferðisofbeldis. Að auki hefur hún opnað fyrir umræðu um alvarlegar afleiðingar kynferðisofbeldis, til dæmis vændis.

Brynhildur hefur verið óþreytandi og mikilvæg baráttukona gegn kynferðisofbeldi og ómetanlegur málsvari fyrir málaflokkinn. Fyrir það ber að þakka.

Fjölmiðlaviðurkenning Stígamóta 2015
Hæpið

Hæpið sýndi í haust tvo afar vandaða þætti á RÚV um kynferðisofbeldi. Í þáttunum, sem ætlaðir eru ungu fólki, var fjallað um þær byltingar sem orðið hafa í íslensku samfélagi og á samfélagsmiðlum á þessu ári og tengjast kynfrelsi kvenna, jafnrétti og baráttu gegn þöggun um kynferðisofbeldi. Það er ómetanlegt að eiga þessa umfjöllun og setja hana í samhengi við brotalamir í réttarkerfinu og þau samfélagslegu viðhorf sem smána brotaþola kynferðisofbeldis. Vonandi mun þetta hvetja ungt fólk til þess að halda áfram að tala saman í sínum hópum um mörk og virðingu í kynlífi – og vinna þannig gegn kynferðisofbeldi.

Við höfum fulla trú á að unga fólkið muni breyta heiminum. Stígamót þakka Hæpinu fyrir sitt framlag til þess.