Stöndum vörð um vora jörð

Dagatal Jafnréttisstofu í ár er tileinkað Ríó samningnum um loftslagsbreytingar sem var samþykktur í New York árið 1992. Samningurinn var undirritaður fyrir Íslands hönd 4. júní 1992 og fullgiltur 16. júní 1993.

Í samningnum er lögð áhersla á nauðsyn þess að öll ríki heims taki þátt í að sporna við loftsslagsbreytingum og vernda vistkerfið.Jafnréttisstofa vill með útgáfu dagatalsins leggja áherslu á áhrif loftslagsbreytinga á konur og karla og hvernig kynin geta haft ólík áhrif á umhverfi sitt.  Loftslagsbreytingar hafa lengi verið álitnar kynhlutlausar þ.e. að þær hafi sömu áhrif á konur og karla og á sama hátt hafi konur og karlar sambærileg áhrif á umhverfi sitt. Rannsóknir sýna að einstaklingar hafa margbreytileg áhrif á vistkerfið. Lífstíll kvenna og karla, hegðun og neysla er ólík og því skilja kynin eftir sig ólík fótspor í vistkerfinu. Það er því nauðsynlegt að taka mið af kynjasjónarmiðum við alla áætlunargerð og ákvarðanir sem varða framtíð okkar á jörðinni hvort sem þær snúast um orkulindir, viðbrögð við hamförum eða breytingar á neysluvenjum fólks til að sporna við loftslagsbreytingum.


Jafnréttisstofa hefur sent ráðuneytum, sveitarfélögum og skólum á öllum skólastigum dagatalið en það má einnig nálgast hér.