Suðurnesjaverkefnið skilar árangri

Um áttatíu manns sóttu í liðinni viku námskeið um forvarnir og aðgerðir gegn heimilisofbeldi sem Jafnréttisstofa stóð fyrir í samstarfi við samstarfsteymi vegna heimilisofbeldis. Tilgangur námskeiðsins var að miðla þekkingu sem skapast hefur á Suðurnesjum í tengslum við verkefnið Að halda glugganum opnum. 
Verkefnið, sem er samstarfsverkefni lögreglu og félagsþjónustu á Suðurnesjum, miðar að því að bæta rannsóknir í málum er varða heimilisofbeldi og koma fleiri málum í gegnum réttarvörslukerfið. Markmiðið þess er að fyrstu viðbrögð lögreglu verði markvissari, úrræði eins og nálgunarbann og brottvísun af heimili verði betur nýtt og þolendur og gerendur fái betri stuðning. 

Árangur suðurnesjaverkefnisins mælist m.a. í því að; a) fleiri heimilisofbeldismál af Suðurnesjunum fá nú framgang innan réttakerfisins, b) færri konur af Suðurnesjum koma í Kvennaathvarfið og c) fleiri karlar af Suðurnesjum sækja sér aðstoð í gegnum meðferðarúrræðið Karlar til ábyrgðar.

Á námskeiðinu kynnti Guðrún Ögmundsdóttir samstarfsteymi vegna heimilisofbeldis og María Gunnarsdóttir, forstöðumaður barnaverndar í Reykjanesbæ, sagði frá suðurnesjaverkefninu. Jóhannes Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Suðurnesjum, fjallaði um reynslu lögreglunnar af verkefninu og Páll Ólafsson, sviðsstjóri ráðgjafar- og fræðslusviðs Barnaverndarstofu sagði frá reynslu Barnaverndarstofu af samstarfi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og barnaverndar. Markhópur námskeiðsins var starfsfólk félagsþjónustu, heilsugæslu, lögreglu, barnaverndar og aðrir sem vinna með heimilisofbeldi og afleiðingar þess á Norðurlandi.

Námskeiðshaldarar ásamt fyrirlesurum lýstu sig viljuga til samstarfs og stuðnings ef áhugi væri á því að nýta reynslu suðurnesjaverkefnisins á Norðurlandi.  Stefnt er að því að námskeið  um forvarnir og aðgerðir gegn  heimilisofbeldi verði haldin víðar um land á næsta ári.