Sveitarstjórnir hvattar til aðgerða gegn kynbundnu ofbeldi og áreitni

Jafnréttisstofa vill vekja athygli á hvatningu stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga til sveitarstjórna landsins til að ræða leiðir gegn kynferðisofbeldi og –áreitni í stjórnmálum og á vinnustöðum sveitarfélaga. Halldór Halldórsson, formaður sambandsins, fjallaði á stjórnarfundi þess um frumkvæði stjórnmálakvenna „Í skugga valdsins“ og mikilvægi þess að sveitarfélög láti sig málið varða.

Var á stjórnarfundinum einnig bent á nauðsyn þess, að öll sveitarfélög setji sér formlega stefnu og viðbragðsáætlun vegna eineltis, ofbeldis og kynferðislegrar og kynbundinnar áreitni enda sé slík hegðun ólíðandi með öllu.

Voru þau sveitarfélög, sem ekki hafa gert slíkt,  einnig hvött til að nýta sér sem fyrirmynd stefnu og viðbragðsáætlun sambandsins í þessu efni og aðgengileg er á heimasíðu þess.

Þá samþykkti stjórnin að málefnið verði tekið til sérstakrar umfjöllunar á landsþingi sambandsins á næsta ári og verði hluti af því námsefni sem kennt er á námskeiðum fyrir sveitarstjórnarmenn í kjölfar næstu sveitarstjórnarkosninga.

Umræður um málið fóru fram að frumkvæði Halldórs utan dagskrár á 854. stjórnarfundi sambandsins. Samþykkti stjórn samhljóða tillögu formanns um að baráttuverkefnið „Í skugga valdsins“ yrði sett á dagskrá.

Nánar um þetta og stefnu og viðbragðsáætlun Sambands íslenskra sveitarfélaga og viðbragsáætlun vegna eineltis, ofbeldis og kynferðislegrar og kynbundinnar áreitni má finna á heimasíðu þeirra.