Sýning á myndverkum úr bókinni Á mannamáli

Þann 25. nóvember síðastliðinn, á alþjóðadegi afnáms ofbeldis gegn konum, opnaði sýning á myndverkum úr bókinni Á mannamáli, í Smáralind í Kópavogi. Gestir og gangandi geta séð sýninguna á meðan á 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi stendur, eða frá 25. nóvember til 10. desember. Sýningin innifelur teikningar eftir Halldór Baldursson skopmyndateiknara, myndlistarkonuna Aðalbjörgu Þórðardóttur, auk verka eftir höfund bókarinnar, Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur. Hverri mynd fylgir fróðleiksmoli um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi - á mannamáli.

Markmið 16 daga átaksins er að vekja fólk til umhugsunar um kynbundið ofbeldi, en það er einnig markmið bókarinnar.