Þórgunnur Oddsdóttir stóð sig best í jafnréttisátaki Landans

 Á facebook síðu Landans – frétta og þjóðlífsþætti RÚV, segir frá því að síðastliðið haust hafi sérstöku jafnréttisátaki Landans verið hrundið af stað. Markmið átaksins var að jafna hlut kynjanna meðal viðmælenda en rannsóknir hafa einmitt sýnt að karlar eru um 70% þeirra sem rætt er við í fréttum og á ljósvakamiðlum.

Til að fylgjast með framgangi átaksins var notast við svokallað kynjabókhald. Hver þáttur var skoðaður með það að markmiði að viðmælendur væru jafnt karlar og konur og hver umsjónarmaður var ábyrgur fyrir sínu kynjabókhaldi. Niðurstöður vetrarins sýna að konur voru 46% viðmælenda.
Þórgunnur Oddsdóttir stóð sig best og talaði við jafn margar konur og karla. Þórhildur Ólafsdóttir hafði fleiri konur til viðtals en karla og Gísli Einarsson stóð sig verst en hann talaði við mun fleiri karla en konur. Þá segir í stöðufærslu Landans á facebook að Gísli muni nota sumarleyfi sitt til uppfræðslu í kynjafræðum.

Að öllu gamni slepptu þá óskar Jafnréttisstofa Landanum til hamingju með vel heppnað átak til að jafna hlut kynja í sjónvarpi og vinna þannig að jöfnum áhrifum kvenna og karla í samfélaginu.