Þú átt VON - Vitundarvakning um heimilisofbeldi

Þú átt VON er vitundarvakning á vegum Jafnréttisstofu um heimilisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum. Í henni er bent á fjölbreyttan stuðning og aðstoð sem er í boði og þolendur hvattir til að hringja í 112 til að leita sér hjálpar og finna það úrræði sem hentar best. 

Heimasíða verkefnisins Þú átt VON má sjá hér

„Þú átt VON fjallar um þær leiðir sem til eru til að komast út úr ofbeldisaðstæðum. Það er alltaf betra að komast úr ofbeldi þó að leiðin út geti verið erfið og ekki alltaf augljós. Það er hægt að fá aðstoð víða í samfélaginu frá fagfólki." Segir Fríða Rós Valdimarsdóttir verkefnastjóri verkefnisins. " Í myndböndunum segja fjórir þolendur frá upplifun sinni af heimilisofbeldi. Þær deila með okkur hvernig þær fundu sína von.“

Áfram þarf að sameina ólíka krafta aðila sem vinna gegn ofbeldi og veita þolendum og aðstandendum stuðning. Auk þess þarf að huga að þeim gerendum sem eru tilbúnir til að leita sér hjálpar. Vitundarvakningin bendir á eitt símanúmer, 112, sem gagnast fólki um allt land. Ef þig grunar að þú sért í ofbeldisaðstæðum skaltu frekar hringja en að sleppa því.

 

Fimm myndbönd endurspegla ólíkar hliðar heimilisofbeldis

Gerð hafa verið fimm myndbönd sem segja hvert sína sögu um heimilisofbeldi. Í fjórum þeirra segja raunverulegir þolendur sögu sína, þar á meðal barn, fötluð kona og kona af erlendum uppruna. Í því fimmta er sjónum beint að gerendum. Myndböndin voru unnin í samvinnu við auglýsingastofuna ENNEMM og Saga Film. Myndböndin má finna á vefsvæðinu Þú átt VON.

Jafnréttisstofa hlaut styrk úr áætlun Evrópusambandsins um réttindi, jafnrétti og borgararétt (Rights, Equality and Citizenship Programme 2014-2020) fyrir verkefnið Byggjum brýr Brjótum múra – Samvinna í heimilisofbeldismálum. Verkefnið er unnið í samstarfi við dómsmálaráðuneytið, velferðarráðuneytið, Ríkislögreglustjóra, Lögregluna á Höfuðborgarsvæðinu, Lögregluna á Norðurlandi eystra, Lögregluna á Suðurnesjum, Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ.