Til hamingju með daginn!

Í dag eru liðin 94 ár frá því konur öðluðust kosningarétt og kjörgengi á við karla. Þann 19. júní 1915 fengu íslenskar konur 40 ára og eldri kosningarétt og kjörgengi til alþingis. Baráttan hafði staðið frá árinu 1885 þó fyrsta opinbera krafan um kosningarétt kvenna hafi ekki komið fram fyrr en árið 1895. Í tilefni dagsins er boðið upp á fjölbreytta dagskrá.
Akureyri

Jafnréttisstofa, Akureyrarbær, Minjasafnið og Zontaklúbbarnir á Akureyri bjóða upp á Kvennasögugöngu um innbæinn á Akureyri. Gengið verður frá Samkomuhúsinu kl.16.15 og mun Elín Antonsdóttir leiða gönguna.

Kristín Sigfúsdóttir, bæjarfulltrúi, ávarpar göngugesti við Samkomuhúsið en síðan verður haldið af stað sem leið liggur inn innbæinn. Á leið um innbæinn munu göngugestir vitja ýmissa kvenna sem bjuggu og störfuðu þar. Staldrað verður við heimili Vilhelmínu Lever, Ragnheiðar O. Björnsson, Önnu Þorbjargar, Elísabetar Geirmundsdóttur og fleiri kvenna í innbænum.

Auk þess að vera góð útivera þá hefur gangan það að markmiði að glæða húsin í innbænum lífi og vonandi munu göngugestir upplifa nýja og áhugaverða tengingu við húsin.

Að göngu lokinni verður boðið upp á kaffi í Minjasafnsgarðinum og Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu flytur ávarp í tilefni


Reykjavík

Alþjóðleg ráðstefna um ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi

Utanríkisráðuneytið og Háskóli Íslands standa fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi, dagana 19.-20. júní 2009. Ráðstefnan fer fram í Háskóla Íslands, Öskju, stofu 132 og hefst kl. 9.

Umfjöllunarefni ráðstefnunnar er hvernig tryggja megi að konur taki með beinum hætti þátt í formlegum og óformlegum friðarferlum, þ.á.m. friðarumleitunum, friðarsamningum og friðaruppbyggingu. Á ráðstefnunni verður kannað hvaða leiðir eru færar fyrir stjórnvöld, alþjóðastofnanir og frjáls félagasamtök til að efla þátttöku kvenna í friðarferlum.

Tíu frummælendur með mikla þekkingu á ályktun öryggisráðsins nr. 1325 og umfangsmikla reynslu af friðarferlum á átakasvæðum munu segja frá reynslu sinni og hugmyndum um hvernig megi bæta framkvæmd ályktunarinnar. Ennfremur verða pallborðsumræður og málstofur með þátttöku frummælenda.

Á meðal frummælenda eru Rachel Mayanja, sérlegur ráðgjafi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um kynjamálefni og bætta stöðu kvenna, Wenny Kusuma, umdæmisstjóri UNIFEM í Afganistan, Samia Bamieh, fyrrverandi sendiherra og varaformaður nefndar palestínskra stjórnvalda um bætta stöðu kvenna, Dr. Naomi Chazan, prófessor í stjórnmálafræði við hebreska háskólann í Jerúsalem og fyrrverandi varaforseti ísraelska þingsins, Donald Steinberg, varaforseti rannsóknarstofnunarinnar International Crisis Group og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, setja ráðstefnuna.


Kvenfélagasamband Íslands

Á Hallveigarstöðum efna Kvenfélagasamband Íslands, Bandalag kvenna í Reykjavík og Kvenréttindafélag Íslands til móttöku og hátíðardagsrkár kl. 17.00-19.00.

Ávörp flytja:

Margrét K. Sverrisdóttir fomraður KRFÍ
Ásta R. Jóhannesdóttir forseti Alþingis
Margrét Steinarsdóttir framkv.stj. Alþjóðahúss
Lára Ómarsdóttir ritstjóri 19. júní

Sabine Leskopf formaður Samtaka kvenna af erlendum uppruna kynnir nýjan bækling samtakanna

Einnig verður tilkynnt um úthlutanir úr Menningar- og minningarsjóði kvenna fyrir árið 2009

Kvennamessa við Þvottalaugarnar í Laugardalnum kl. 20.00


Heimildamyndin „Konur á rauðum sokkum“ verður sýnd í Regnboganum

Þessi fróðlega og skemmtilega mynd Höllu Kristínar Einarsdóttur um rauðsokkahreyfinguna hlaut áhorfendaverðlaunin á Skjaldborgarhátíðinni nýlega.

Myndin byggist á viðtölum þeirra Höllu og Fríðu Rósar Valdimarsdóttur við um 20 konur sem tóku þátt í kvennabaráttunni á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar, og er einn afrakstur verkefnisins Minningar úr kvennabaráttunni 1965–1980 sem Miðstöð munnlegrar sögu stendur að.

Sýning myndarinnar hefst kl. 20.00. Líklegt er að fleiri sýningar verði á myndinni í Regnboganum.