Tímaritshefti um áhrif kyns í PISA-rannsókninni

Nýlega kom út sérstakt hefti af tímaritinu European Educational Research Journal um efnið gender and PISA (kyngervi og PISA) sem Ingólfur Ásgeir Jóhannesson prófessor við Háskólann á Akureyri ritstýrði ásamt Almari M. Halldórssyni og Ragnari F. Ólafssyni sérfræðingum hjá Námsmatsstofnun. Í heftinu eru fjórar greinar sem fjalla um hvernig hægt er að nota PISA-rannsóknina til að aukins skilnings á áhrifum kyns nemenda á nám. Heftið varð til í framhaldi af málstofum á Evrópsku menntarannsóknaráðstefnunni haustið 2007. Ein greinanna fjallar um Ísland þar sem mikill kynjamunur, sem kom fram í PISA-rannsókninni 2003, er borinn saman við samræmd próf. Í grein um Írland er einnig samanburður á niðurstöðum PISA og innlendra prófa.

Þá er í heftinu grein þar sem gerður er samanburður á Sviss og Svíþjóð. Loks er grein eftir belgíska fræðimenn þar sem sýnt er fram á að kynjamunur getur farið eftir hvers konar viðfangsefni eru í prófinu - stúlkur standi sig til dæmis betur en drengir í opnum spurningum. Heftið er aðgengilegt á netinu og hægt er að lesa útdrætti greinanna en eftir 18 mánuði verður heftið opnað án endurgjalds.

European Educational Research Journal 
Volume 8 Number 1 2009