Umboðsmaður jafnréttismála í Noregi

Fyrirlestur fimmtudaginn 6. apríl 2006 Kl. 12.00 í anddyrinu á Borgum. Umboðinu er ætlað að berjast gegn mismunun á grundvelli kyns, kynþáttar, fötlunar, kynhneigðar, aldurs o.fl., auk þess að stuðla að jafnrétti á þessum sviðum.

Beate Gangås mun ræða um nýja skrifstofu umboðsmanns jafnréttismála í Noregi, sem sinnir jafnrétti í víðasta skilningi. Nýja jafnréttisumboðið í Noregi var stofnað 1. janúar 2006.

Í erindi sínu fjallar Beate um nýja umboðsmannsembættið, verkefni þess, þróun og möguleikana sem skapast þegar unnið er á grundvelli ólíkrar réttindalöggjafar.

Umboðsmaður jafnréttismála í Noregi, Beate Gangås er lögfræðingur að mennt. Hún starfaði hjá lögreglunni frá 1992 og varð lögreglustjóri 2001. Síðan þá hefur hún leitt störf gegn skipulagðri glæpastarfsemi hjá embætti norska ríkislögreglustjórans. Hún starfaði sem aðstoðarríkislögreglustjóri frá því í apríl 2005. Fram að því sinnti hún ýmsum störfum hjá lögregluembættinu í Osló og leiddi m.a. efnahagsbrotadeild og ákærudeild sem fjalla m.a. um brot sem varða verslun með manneskjur, heimilisofbeldi og kynþáttahatur. Þá sinnti hún verkefnum sem tengjast kynjajafnrétti og kynþáttamismunun. Beate Gangås hefur setið í stjórn SMED og leitt vinnuhóp um verslun með manneskjur á vegum INTERPOL. Hún er nú skipuð umboðsmaður jafnréttismála til fjögurra ára.