Umfangsmesta rannsókn um heimilisofbeldi á Íslandi

Drífa Jónasdóttir, doktorsnemi við læknadeild Háskóla Íslands, hefur síðustu ár rannsakað umfang og eðli heimilisofbeldis, eins og það birtist í gögnum hjá Landspítalanum á tíu árum frá 2005 til 2014. Í rannsókn Drífu var sjónum beint að líkamlegum áverkum, ekki þeim sálrænu, sem rannsóknir sýna að eðli málsins samkvæmt geti verið miklir. Rannsókn Drífu dregur einnig fram í dagsljósið þann kostnað sem fylgir spítalakomum kvennanna, kostnaður eins og hann birtist í gögnum Landsspítalans.

Rannsókn Drífu sýnir m.a. að af þeim tæplega 1.500 konum sem leituðu á Landspítala vegna áverka af hendi maka, á tímabilinu 2005 til 2014, komu 38 prósent þeirra ítrekað á spítalann vegna ofbeldis. Tæp tíu prósent þessara 1500 kvenna höfðu verið teknar hálstaki. Þrjátíu og sjö prósent voru með áverka á höfði, í andliti og á hálsi, átta prósent með áverka á brjóstkassa, fimm prósent með áverka á hrygg og tíu prósent með dreifða áverka. Þessar niðurstöður má lesa í fræðigrein Drífu og kollega um rannsóknina sem birtist í Scandinavian Journal of Public Health þann 20. apríl sl.