Umfjöllun um leikritið Ökutíma í 07/08 í kvöld

Síðastliðið sunnudagskvöld var sérstök aukasýning á leikritinu Ökutímum eftir Paulu Vogel. Jafnréttisstofa og Leikfélag Akureyrar efndu til þessarar aukasýningar í tilefni af 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi. Í lok sýningarinnar voru umræður undir stjórn Magnúsar Geirs Þórðarsonar, leikhússtjóra LA, og Kristínar Ástgeirsdóttur, framkvæmdastýru Jafnréttisstofu. Þátttakendur í umræðunni voru María Reyndal leikstjóri, leikhópur leiksýningarinnar, Sigrún Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur, starfskonur Aflins og leikhúsgestir.

Var sýningin sérlega vel lukkuð og umræðurnar eftir hana afar fróðlegar. Sigrún Sigurðardóttir fjallaði stuttlega um lokaritgerð sína, þar sem hún tók fyrir kynferðislega misnotkun og önnur sálræn áföll í æsku og áhrif þeirra á heilsufar og líðan kvenna. Notaði hún tækifærið til þess að bera niðurstöður sínar saman við það sem kom fram í verkinu. Taldi hún að verkinu og leiksýningunni hefði tekist mjög vel að varpa raunverulegu ljósi á þennan málaflokk og reynslu kvenna sem hafa orðið fyrir kynbundnu ofbeldi og misnotkun sem börn. Tóku fleiri í salnum undir þetta og í rúman klukkutíma voru mjög líflegar umræður.

Magnús Geir sleit dagskránni með því að tilkynna að tónlistarkonan Lovísa Sigrúnardóttir (Lay Low) hefði ákveðið að gefa allan ágóða sinn af væntanlegri útgáfu af tónlist leiksýningarinnar til Aflsins, samtaka gegn kynferðis- og heimilisofbeldis. Einnig tilkynnti Magnús að LA ætli að gefa Aflinu ágóðann af síðustu sýningu ársins á verkinu. Lovísa afhenti Aflskonum blómvönd í tilefni þessa.

Jafnréttisstofa vill hvetja alla til þess að fara á þessa leiksýningu og taka þar með þátt í  umræðunni gegn kynbundnu ofbeldi. Einnig viljum við vekja athygli á því að í kvöld verður umfjöllun um þessa sérstöku aukasýningu í þætti ríkissjónvarpsins 07/08, klukkan 20:10.