Umönnunargjá - staða foreldra eftir fæðingarorlof

Að beiðni Jafnréttisráðs hefur Edda Sigurbjörg Ingólfsdóttir félagsfræðingur tekið saman til útgáfu íslenskan útdrátt á efni meistararitgerðar sinnar sem skilað var til Háskólans í Lundi á síðasta ári. Ritgerðin heitir á frummáli Det löser sig: En studie om hur isländska föräldrar överbygger omsorgsgapet mellan föräldraledighet och förskola og fjallar um það hvernig foreldrar brúa svokallaða „umönnunargjá“ sem myndast þegar þeir hafa nýtt orlof sem úthlutað er samkvæmt lögum nr. 95/2000 um fæðingar og foreldraorlof en hafa ekki ennþá möguleika á leikskólaplássi fyrir barn sitt.

Meðal þess sem kemur fram í rannsókninni er að umrædd umönnunargjá getur orðið til þess að vinna gegn jákvæðum áhrifum fæðingarorlofsins á jafnrétti kynjanna bæði innan heimilisins og á vinnumarkaðnum. Ástæðurnar felast meðal annars í því að konur nýta í miklum meirihluta það orlof sem foreldrar geta skipt milli sín og feður telja sig bundnari af atvinnuþátttöku.