UNIFEM-UMRÆÐUR um mansal á laugardaginn

Næstkomandi laugardag 2. maí mun UNIFEM á Íslandi halda áfram með fundaröð sína UNIFEM-UMRÆÐUR. Markmið fundanna er að varpa ljósi á stöðu kvenna í þróunarríkjum og á stríðshrjáðum svæðum sem og að kynna starf UNIFEM. Fundurinn sem stendur í um klukkutíma verður haldinn í Miðstöð Sameinuðu þjóðanna að Laugavegi 42 og hefst kl. 13.

Katrín Hauksdóttir, meistaranemi í alþjóðasamskiptum
- Mansal og vændi á alþjóðavísu-

Hildur Jónsdóttir, sérfræðingur á jafnréttis- og vinnumálasviði félags- og tryggingamálaráðuneytisins
-Mansal á Íslandi og aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda-

Katrín mun fjalla um mansal í alþjóðlegu samhengi, hvernig það tengist alþjóðlegri glæpastarfsemi og hvað alþjóðasamfélagið er að gera til að vinna gegn þessu formi þrælasölu. Hún mun varpa ljósi á umfang vandans og hvaða áhrif mansal hefur á þolendur þess. Hildur mun fjalla um aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda gegn mansali sem samþykkt var af ríkisstjórninni 17. mars síðastliðinn. Aðgerðaáætlunin tekur á mörgum hliðum mansals; forvörnum, viðbrögðum, eftirliti, aðstoð við þolendur og saksókn gerenda svo eitthvað sé nefnt.

Á eftir verða umræður. Ókeypis inn og allir velkomnir!

- - - - - - - - -
Mansal, sem oft er nefnt nútímaform þrælasölu, er að mati Sameinuðu þjóðanna sú skipulagða glæpastarfsemi sem nú vex hvað hraðast í heiminum. Hagnaður af mansali er í heild áætlaður um 32 milljarðar bandaríkjadala á ári hverju sem þýðir að hagnaður af mansali er talinn koma næst hagnaði af ólöglegri vopnasölu og fíkniefnasölu. Samkvæmt flestum matsaðilum eru um 80% fórnarlamba kvenkyns og allt að helmingur börn undir 18 ára aldri. Á Vesturlöndum er höfuðtilgangur mansals að sinna eftirspurn eftir vændi og annarri kynlífsþjónustu, klámi og barnaklámi sérstaklega.

Mansal eða verslun með fólk er þekkt fyrirbæri um allan heim og hefur grunur um mansal á Íslandi löngum verið tengdur nektardansstöðum og vændi. Íslensk stjórnvöld hafa nú samþykkt aðgerðaáætlun gegn mansali og taka þannig þátt í að uppræta alþjóðlega glæpastarfsemi og standa um leið við skuldbindingar sínar um að berjast gegn mansali sem fram hafa komið í alþjóðasamningum.