Vændi á Norðurlöndum rannsakað

Nú í ágúst hefst vinna við verkefni á vegum Norrænu rannsóknarstofnunarinnar í kvenna- og kynjafræðum (NIKK) sem nefnist Vændi á Norðurlöndum. Um er að ræða eins árs rannsóknarverkefni sem sett var af stað að frumkvæði norrænu jafnréttisráðherranna.

Verkefninu er ætlað að kortleggja umfang vændis og mansals á Norðurlöndunum, skoða löggjöf landanna og þær aðgerðir sem notaðar eru til að vinna gegn vændi og mansali, auk þess sem áhrif viðkomandi löggjafar og aðgerða verða athuguð. Þá er fyrirhugað að rannsaka og greina afstöðu kvenna og karla til kaupa á kynlífsþjónustu.

Sérfræðingar frá öllum Norðurlöndunum koma að verkefninu. Rannsóknarstofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands mun annast íslenska rannsóknarhlutann. Gísli Hrafn Atlason, mannfræðingur, og Guðný Gústafsdóttir, MA-nemi í kynjafræði, munu starfa við rannsóknina, en Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, dósent í félagsfræði, verður faglegur umsjónarmaður rannsóknarinnar hérlendis.