Vel heppnað jafnréttisþing í Mosfellsbæ

Rúmlega 50 manns sóttu jafnréttisþing sem fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar stóð fyrir sl. fimmtudag, en þingið var haldið til heiður Helgu J. Magnúsdóttur sem var fyrst kvenna oddviti í sveitarfélaginu fyrir hálfri öld. Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur samþykkt að fæðingardagur Helgu, 18. september, verði framvegis árlegur jafnréttisdagur bæjarins.
Formaður fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar, Jóhanna B. Magnúsdóttir, opnaði jafnréttisþingið og síðan var Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri, með ávarp. Salóme Þorkelsdóttir, fyrrverandi alþingismaður og forseti Alþingis, ræddi um ævi og störf Helgu, en Salóme var á sínum tíma eftirmaður Helgu í hreppsnefnd Mosfellsbæjar.

Þá fjallaði Sigurlaug Viborg, forseti Kvenfélagasambands Íslands, um starf og hlutverk kvenfélaga og þá ekki síst um framlag Helgu til þeirra, en Helga var formaður Kvenfélagasambands Íslands og í aðalstjórn sambandsins 1963-1977.

Loks ræddi Auður Styrkársdóttir, forstöðumaður Kvennasögusafns Íslands um hlutdeild kvenna í sveitarstjórnum. Í máli Auðar kom fram að hún teldi prófkjörsformið draga úr þátttöku kvenna í stjórnmálum og spunnust líflegar umræður út frá erindi hennar. Lokaerindið á jafnréttisþinginu átti Dagný Kristjánsdóttir, prófessor, sem fjallaði um konur í verkum Halldórs Laxness. Að lokinni dagskrá þingsins var móttaka í boði Mosfellsbæjar.