Vel heppnuð málstofa um kyn og sveitarstjórnarmál

Jafnréttisstofa og Samband íslenskra sveitarfélaga stóðu fyrir málstofu um kyn og sveitarstjórnarmál á Fundi fólksins sem fram fór á Akureyri 8. og 9. september sl. Þátttakendur voru almennt sammála um mikilvægi þess að konur jafnt sem karlar beittu sér á vettvangi sveitarstjórnarmála. Málsstofustjóri var Svanfríður Jónasdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri á Dalvík.

Helga Guðrún Jónasdóttir, samskiptastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, hóf málstofuna á því að fara yfir tölfræðilegar upplýsingar sem Tryggva Hallgrímssonar sérfræðingur á Jafnréttisstofu tók saman. Fjórir núverandi og fyrrverandi sveitarstjórnarmenn og sveitarstjórar sögðu frá sinni upplifun af sveitarstjórnarmálum m.t.t. kyns og sátu í framhaldinu í panel. Þetta voru þau Andrea Hjálmsdóttir, fyrrverandi bæjarfulltrúi á Akureyri, Ólafur Rúnar Ólafsson, sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit, Unnur Valborg Hilmarsdóttir, oddviti Húnaþings vestra og Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrarbæjar.

Fjörugar umræður sköpuðust og voru skoðanir skiptar þó almennt hafi þátttakendur verið sammála um mikilvægi þess að konur jafnt sem karlar beittu sér á vettvangi sveitarstjórnarmála. Þrátt fyrir að konur séu að nálgast karla sem kjörnir fulltrúar er enn langt í land þegar kemur að ýmsum áhrifastöðum innan sveitarfélaga. Konur eru t.d. einungis 23% framkvæmdastjóra sveitarfélaga. Lokaorð átti Kristín Ástgeirsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastýra Jafnréttisstofu.

• Tölfræðilegar upplýsingar
• Dagskrá málstofunnar