Vel heppnuð málstofa um staðalímyndir á Akureyri

Jafnréttisstofa stóð fyrir málstofu  um átakið „Afnemum staðalímyndir kynjanna, leyfum hæfileikunum að njóta sín“ á hótel KEA fimmtudaginn 1. október sl. Málstofan  hófst með kynningu á átakinu sem er samstarfsverkefni 27 aðildarríkja Evrópusambandsins auk Noregs og Íslands. Haldnar eru málstofur í þessum löndum fyrir starfsmenn verslunarráða, viðskipta- og fagsamtaka, stjórnendur, mannauðsstjóra og alla sem áhuga hafa á málefninu. Átakið tekur einnig saman og veitir sérstök þjálfunarúrræði til að nýta betur og með skilvirkari hætti hæfileika einstakra starfsmanna innan fyrirtækja og stofnana. Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu fjallaði um staðalímyndir og stöðu kynjanna á Íslandi í dag og Gyða Margrét Pétursdóttir doktorsnemi kynnti hvernig staðalímyndir á vinnustað verða til og er viðhaldið af báðum kynjum.
Málstofugestir leystu ýmis verkefni og fengu greinargóða handbók um staðalímyndir á vinnustöðum. Málstofan þótti gagnleg og verkefnin sköpuðu miklar umræður um mögulegar leiðir til að nýta mannauð fyrirtækja og stofnana betur. Góð þátttaka var í málstofunni og komu málstofugestir bæði frá opinberum og einkareknum fyrirtækjum og stofnunum.
Vakin er athygli á málstofum sem verða haldnar í Reykjavík 28. og 29. október á Hótel Sögu.

Þátttaka í málstofunum er endurgjaldslaus en fjöldi þátttakenda er takmarkaður.
Sótt er um þátttöku á: http://app-gender.itcilo.org/

Nánari upplýsingar veitir:

Jafnréttisstofa
Borgum v. Norðurslóð
600 Akureyri
sími 460 6200
www.jafnretti.is

Tengiliður: Ingibjörg Elíasdóttir
netfang: ingibjorg[at]jafnretti.is