Vel heppnuð ráðstefna um jafnrétti og hagsæld

Fjölmennt var á ráðstefnu um jafnrétti á vinnumarkaði sem haldin var af UN Women, Festu, Jafnréttisstofu og samtökum atvinnulífsins á Hilton Nordica þann 27. maí sl.Á ráðstefnunni fluttu stjórnendur nokkurra af stærstu fyrirtækjum landsins erindi um mikilvægi þess að nýta mannauð karla og kvenna í fyrirtækjarekstri og sýndu fram á áherslur og verklag innan sinna fyrirtækja til að stuðla markvisst af auknu kynjajafnrétti og jafnrétti í víðum skilningi. 

Stjórnendur fyrirtækja sem starfa einnig á erlendum mörkuðum töldu mjög mikilvægt að íslensk fyrirtæki væru fyrirmyndir þegar kemur að jafnréttissinnaðri vinnumenningu þar sem launajafnrétti, fjölskyldugildi og jöfn tækifæri kynjanna eru í hávegum höfð. 

Bæði Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, forstjóri Actavis á Íslandi og Sigurborg Arnarsdóttir fjárfestatengill Össurar töldu þessa þætti þegar hafa haft áhrif í þeirra fyrirtækjum en enn væri verk að vinna á hinum ýmsu sviðum fyrirtækjanna bæði hérlendis og erlendis. Þorsteinn Víglundsson ræddi um mikilvægi atvinnuþátttöku kvenna á Íslandi. Hann benti á að ef atvinnuþátttaka kvenna væri sambærileg við það sem gerist á evrusvæðinu væri landsframleiðsla Íslands 15 -20% minni og lífskjör verri.

Stjórnarráð Íslands undirritaði yfirlýsingu um að fylgja Jafnréttissáttmála Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna hér á landi. Þetta er í fyrsta sinn sem öll ráðuneyti eins ríkis undirrita þennan sáttmála í sameiningu. Fyrirtækin Arion banki, Actavis á Íslandi, Össur og Alcoa Fjarðarál undirrituðu einnig yfirlýsinguna og bætast þar með í hóp eftirtaldra fyrirtækja sem hafa undirritað yfirlýsinguna: Landsbankinn, N1, Lyfja, VÍS, Íslandsbanki, Deloitte, Marel, Alcan á Íslandi, Landsvirkjun, Kaffitár, CCP, ELLA og Síminn.

Á ráðstefnunni voru í fyrsta sinn afhent Hvatningaverðlaun jafnréttismála í fyrirtækjum en þau veitti  Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar-og viðskiptaráðherra Rio Tinto Alcan fyrir framúrskarandi árangur á sviði jafnréttismála.