- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Jafnréttisstofa hefur uppfært leiðbeiningar til fyrirtækja og stofnana um gerð jafnréttisáætlana. Nýjum áherslum í leiðbeiningunum er ætlað að tryggja víðari sýn á jafnrétti þar sem fjölbreytni íslensks vinnumarkaðar er spegluð.
Á þeim sautján árum sem liðin eru frá því að íslensk fyrirtæki og stofnanir hófu að gera jafnréttisáætlanir hefur vinnumarkaðurinn og íslenskt samfélag breyst töluvert. Samhliða hefur krafan til stjórnenda um inngildandi vinnustað þar sem öll hafa sömu tækifæri aukist. Til að jafnréttisáætlanir hafi raunveruleg áhrif þurfa þær að þróast með þessum breytingum og taka mið af ólíkum þáttum mismununar – ekki aðeins kyni, heldur einnig aldri, skertri starfsgetu, kynhneigð, þjóðerni og fleiri breytum. Jafnréttisáætlanir verða þannig betra verkfæri fyrir stjórnendur til þess að skapa vinnustaðamenningu þar sem litið er á fjölbreytileikann sem styrk fyrir vinnustaðinn og starfsemina.
Jafnréttisáætlunum er ætlað að tryggja réttindi starfsfólks og virkt jafnréttisstarf. Hver jafnréttisáætlun gildir í þrjú ár og þarf þá að endurnýja hana og öðlast aftur formlegt samþykki Jafnréttisstofu. Fjöldi fyrirtækja og stofnana hafa farið marga gildishringi og má því ætla að frá því að lagaskyldunni um jafnréttisáætlanir var komið á árið 2008 hafi Jafnréttisstofa innkallað og samþykkt nokkur þúsund áætlanir. Jafnréttisáætlanir eru miðlæg stefna á hverjum vinnustað, þær eiga að vera aðgengilegar starfsfólki og í þeim endurspeglast vilji stjórnenda til að vinna að raunverulegu jafnrétti.
Frá 1. mars 2008 þegar lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla tóku gildi hefur formlega samþykkt jafnréttisáætlun verið ein af skyldum atvinnurekenda með fleiri en 25 starfsmenn í vinnu. Í núgildandi lögum (nr. 150/2020) er áhersla lögð á öll kyn, þ.e. ekki einungis karla og konur heldur þarf einnig að tryggja réttindi fólks með hlutlausa kynskráningu í jafnréttisáætlunum. Nýjar leiðbeiningar miða að því að fyrirtæki og stofnanir hafi lög nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði einnig til hliðsjónar en markmið þeirra er að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði.