Vinnufundur Jafnréttisstofu, ASÍ og félagasamtaka gekk vel


Rúmlega þrjátíu manns frá fjölmörgum félagasamtökum mættu á vel heppnaðan vinnufund í tilefni tuttugu ára afmælis Peking áætlunarinnar. Til umræðu voru kaflarnir tólf í áætluninni, auk málefna minnihlutahópa, kynvitund og kynhneigð.

Unnið var í fimm 8 – 10 manna hópum þar sem þátttakendur ræddu hvað helst vantaði inn í Peking áætlunina miðað við þróunina síðustu tuttugu ára og hvað brýnast væri að gera. Farnar voru þrjár umferðir og skiptu þátttakendur um borð og viðfangsefni milli umferða.





Þessa dagana er verið að vinna úr niðurstöðum fundarins. Þegar niðurstöðurnar liggja fyrir verða þær sendar þátttakendum og síðan kynntar stjórnvöldum, stjórnmálaflokkum, fjölmiðlum, aðilum vinnumarkaðarins og öðrum er málið varðar.

Jafnréttisstofa boðaði til fundarins í samstarfi við Alþýðusamband Íslands og önnur frjáls félagasamtök. Fundurinn var haldinn í Reykjavík sl. laugardag og er til umræðu að halda samskonar fund á Akureyri með vorinu.