Vitundarvakning um ofbeldi gegn börnum-Fræðsluþing víða um land

Vitundarvakning um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum stendur fyrir fræðsluþingum víða um land í október 2013. Þingin eru hugsuð fyrir stjórnendur, kennara og annað starfsfólk grunn- og framhaldsskóla. Einnig eru hvattir til að mæta; forvarnarfulltrúar, náms- og starfsráðgjafar, þeir sem starfa við íþrótta-og æskulýðsmál, barnavernd, heilsugæslu og félagsþjónustu að ógleymdum sveitarstjórnum og löggæslu. Vitundavakning leggur áherslu á að fræða þá sem vinna með börnum um eðli og afleiðingar kynferðislegs, andlegs og líkamlegs ofbeldis, svo allir séu í stakk búnir til að bregðast við, ef börn sýna þess merki að hafa orðið fyrir ofbeldi.Hlutverk Vitundarvakningar er að kortleggja, samhæfa og stuðla að umfangsmiklu forvarnarstarfi í málaflokknum í samstarfi við viðkomandi aðila, huga að rannsóknum varðandi ofbeldi gegn börnum og stuðla að aukinni samfélagsvitund um málaflokkinn. Fræðsla og forvarnir beinast fyrst og fremst að börnum, fólki sem vinnur með börnum, réttarvörslukerfinu sem og almenningi.

Vitundarvakningin  á rætur að rekja til fullgildingar íslenskra stjórnvalda, árið 2012, á samningi Evrópuráðsins um varnir gegn kynferðislegri misnotkun og kynferðislegri misneytingu barna sem samþykktur var á Lanzarote árið 2007. Í kjölfarið gerðu innanríkisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og velferðarráðuneyti með sér samning um verksvið Vitundarvakningar. Árið 2013 var ákveðið að Vitundarvakningunni yrði falið víðtækara hlutverk og nái einnig til andlegs og líkamlegs ofbeldis gegn börnum.

Vitundarvakningin um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum heyrir undir þrjú ráðuneyti, innanríkisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og velferðarráðuneyti.

Fyrsta fræðsluþingið fer fram 1. október í Fjölbrautaskóla Norðurlands á Sauðárkróki en síðan fara fræðsluþingin fram á Akureyri, á Suðurnesjum, á Reyðarfirði, Höfn í Hornafirði, Akranesi, Ísafirði, Grundarfirði, Hafnarfirði, Hvolsvelli og í Reykjavík.
Nánar um staðsetningar og tíma.


Dagskrá fræðsluþinga 2013

12.30 Hádegissnarl.

13:00 Ávarp ráðherra.

13:10 Vitundarvakning. Kynning á verkefninu, vefur, fræðsluefni.

13:15 Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, handritshöfundur og verkefnastjóri Fáðu já. „Fáðu já og annað 
fræðsluefni – og hvað svo?“.

13:30 Hjördís Þórðardóttir/ Bergsteinn Jónsson, verkefnastjóri. „Réttindafræðsla sem forvörn.“

13:45 Kaffi & te.

14:00 Ólöf Ásta Farestveit/Margrét Kristín Magnúsdóttir/Þóra Sigfríður Einarsdóttir/Þorbjörg Sveinsdóttir frá 
Barnahúsi. „Einkenni þolenda kynferðisbrots.“

14.15 Anna Kristín Newton/María Jónsdóttir/Ólafur Bragason/Sólveig Fríða /Þórarinn Viðar Hjaltason: 
„Skaðleg kynhegðun barna og klám.“

14:30 Stefán Eiríksson, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu flytur erindið „Rannsókn kynferðisbrota og 
annarra brota gegn börnum.“

14:45 Kaffi og veitingar.

15:20 Hópastarf sem fyrirlesarar stýra. 

16:20 Stutt samantekt.

16:40 Bæjarstjóri/forseti bæjarstjórnar slítur þinginu.


Dagskrá og staðsetningar fræðsluþinga (til útprentunar)

Skráning á þingin: gestamottakan@gestamottakan.is