Yfirlit yfir kynjahlutfall í nefndum og ráðum á vegum ríkisins

Stjórnarráðshúsið
Stjórnarráðshúsið

Jafnréttisstofa hefur tekið saman myndrænt tölfræðiyfirlit yfir kynjahlutfall í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ríkisins fyrir árin 2022-2024. Upplýsingaöflun Jafnréttisstofu byggir á 28. gr. laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Tölfræðin er byggð á greinargerðum frá jafnréttisfulltrúum ráðuneytanna og hefur frá því að lög nr. 10/2008 (eldri jafnréttislög) voru sett verið birt í árlegum skýrslum en er nú tekin saman í eitt heildstætt yfirlit.

Sjá tölfræðiyfirlit hér.

Við breytingar á Stjórnarráði Íslands þegar ráðuneytum fjölgar eða fækkar og skipting stjórnarmálefna breytist reynist samanburður á skipan nefnda flóknari. Yfirlitið sem hér er birt byggir á þeirri breytingu sem var gerð með forsetaúrskurði 1. febrúar 2022 og takmarkast við nefndir, ráð og stjórnir sem skipaðar voru á þriggja ára tímabili auk þess sem birtur er heildarfjölda starfandi nefnda miðað við greinargerðir þessa árs fyrir árið 2024.

Árið sem lög nr. 10/2008 gengu í gildi voru 43% nefnda sem störfuðu á vegum stjórnvalda í samræmi við 15. gr. þeirra laga, flestar þeirra skipaðar fyrir gildistöku laganna. Á þeim 17 árum sem liðin eru frá því að löggjöfin tók gildi hafa nefndirnar í auknum mæli verið skipaðar í samræmi við lög en síðastliðin tvö ár virðist hafa orðið viðsnúningur á þeirri þróun. Hlutfall nefnda sem eru skipaðar í samræmi við lögin fór upp í 70% árið 2017 og árið 2020 í 74% en er árið 2024 62%.

Af heildarfjölda starfandi nefnda í árslok 2024 eru 67% rétt skipaðar, þ.e. í samræmi við 28. gr. Skipan nefnda á það til að endurspeglast í kynjaskiptingu vinnumarkaðarins. Þannig eru 62% nefndarmanna á vegum heilbrigðisráðuneytisins konur og voru 45% nefndanna ekki rétt skipaðar árið 2024. Í matvælaráðuneytinu eru karlar 56% nefndarmanna og helmingur nefndanna var ekki skipaður í samræmi við 28. gr. árið 2024.

Sé litið til lögbundinna nefnda er kynjaskiptingin svo til jöfn 49% konur á móti 51% karlar. Á þriggja ára tímabilinu er samræmi við lög minnst hjá dómsmálaráðuneytinu, þar sem 71% nefnda voru þar ekki rétt skipaðar árið 2024.

Á heildina eru konur í meirihluta ráðherraskipaðra nefnda, 54%. Háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra og utanríkisráðherra skipuðu allar sínar nefndir rétt árið 2024 og mest ósamræmi við lög er hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, 46% nefnda rétt skipaðar.

Í þeim tilfellum sem nefndaskipan er ekki í samræmi við 28. gr. laga er óskað eftir skýringum tilnefningaraðila. Auk þess er kannað hvort ráðuneytin fari eftir því verklagi sem þau hafa sett sér og Jafnréttisstofa leggur í kjölfarið og eftir atvikum mat á það hvort undanþáguheimildin í 28. gr. hafi verið nýtt með lögmætum hætti.

 

28. gr. Þátttaka í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera.

Við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal þess gætt að hlutfall kvenna og karla sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Þetta gildir einnig um stjórnir opinberra hlutafélaga og fyrirtækja sem ríki eða sveitarfélag er aðaleigandi að.

Þegar tilnefnt er í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal tilnefna bæði karl og konu. Tilnefningaraðila er þó heimilt að víkja frá því þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að það er ekki mögulegt. Skal tilnefningaraðili þá skýra ástæður þess.

Skipunaraðila er heimilt að víkja frá ákvæði 1. mgr. ef undanþáguheimild 2. mgr. á við.

Ákvæði þetta kemur ekki í veg fyrir tilnefningu og skipun fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá í nefndir, ráð og stjórnir á vegum hins opinbera. Þetta gildir einnig um stjórnir opinberra hlutafélaga og fyrirtækja sem ríki eða sveitarfélag er aðaleigandi að. Hlutfall kvenna skal þó aldrei vera minna en 40%.