Ég var því ekki vel búinn undir áfallið

Óðinn Waage skrifar

Ég var því ekki vel búinn undir áfallið

Þegar ég var að vaxa úr grasi upp úr miðri síðustu öld þá var aðgengi að upplýsingum ekki mikið. Það voru dagblöðin sem hvert um sig hafði sína útgáfu af þeim veruleika sem að stjórnmálaskoðanir þeirra boðuðu þeim.  Maður las því bara teiknimyndasögurnar.Skólar skömmtuðu manni ákveðna þekkingu sem snérist fyrst og fremst um að læra utanbókar, ekki að mynda sér skoðun eða að gagnrýna.  Ef maður óttaðist eitthvað var manni sagt að biðja til guðs og þá færi allt vel.  Fyrir barn var þetta því einfaldur og þægilegur heimur.  Vonda fólkið var í útlöndum, á Íslandi var allt gott.

Ég var því ekki vel búinn undir áfallið.  
Mamma var einstæð þriggja barna móðir.  Á daginn vann hún í matvöruverslun kaupfélagsins. Þegar þeirri vinnu lauk fóru hún og amma og skúruðu skrifstofur sýslumannsins.  Á kvöldin og um helgar seldi hún snyrtivörur í heimhúsum.
Ég var mikið hjá ömmu og þegar mamma var heima var alltaf gaman.  Ég gat líka heimsótt hana í vinnuna þegar mig langaði.  Mig skorti aldrei neitt, stundaði margar íþróttir og fékk allt sem aðrir fengu.  Ég var umvafinn ástúð, lífið var yndislegt.

Einn daginn þegar ég var tíu ára heimsótti ég mömmu í vinnuna.  Hún var að tala við yfirmann sinn og ég sá strax að mamma var í uppnámi.  Mamma var búinn að vinna hjá kaupfélaginu síðan að hún var unglingur.  Nú hafði ungur piltur verið ráðinn í búðina og mamma hafði komist að því að hann fékk hærri laun en hún.  Samtalið sem ég heyrði var svona:

Yfirmaðurinn: "Þú verður nú að skilja vinan mín að hann er kominn með kærustu og er því fyrirvinna heimilisins."

Mamma: "En hvað er ég þá, einstæð móðir með þrjú börn, er ég ekki fyrirvinna míns heimilisins?"

Yfirmaðurinn brosti góðlátlega, klappaði mömmu á öxlina og sagði: "Þú verður bara að finna þér mann."

Síðan gekk hann í burtu.  Ég sá að mamma var mjög reið, en líka sár því það láku tár niður kinnar hennar.  
Ég skildi þetta ekki.  Hvers vegna fékk mamma minni laun en ungi pilturinn?  Mamma kunni meira að segja vinnuna miklu betur, ég vissi það alveg, ungi pilturinn var alltaf að spyrja mömmu hvernig ætti að gera þetta og hitt.
Þegar mamma kom heim um kvöldið vildi ég fá svör.  Mamma sagði mér að þetta væri vegna þess að það væri ekkert jafnrétti, konur hefðu ekki sama rétt og karlar.  Svo þurfti mamma að drífa sig í næstu vinnu svo ég fékk ekki frekari útskýringar.

Þetta var mikið áfall.
Ég skildi þetta alls ekki.  Ég skildi ekki einu sinni þetta orð, jafnrétti.  Hvers vegna það þyrfti að vera til, minn einfaldi heimur gerði ráð fyrir að það ættu allir að eiga sama rétt.

Nú rúmum fjörutíu árum seinna hef ég ekki enn jafnað mig.  Ég er enn þeirrar skoðunar að þetta orð ætti ekki að vera til, að það ætti að vera sjálfgefið að allir hefðu sama rétt, skilyrðislaust.

En ég lærði þennan dag að það sem ég fékk var ekki sjálfgefið og að mamma mín væri ótrúleg manneskja.  Ég er enn þeirrar skoðunar.