Fyrst kvenna á þingi

Erindi flutt í Alþingishúsinu 8. Júlí 2012 í tilefni af því að þann dag voru 90 ár liðin frá því að Ingibjörg H.Bjarnason var kjörin á þing fyrst kvenna.

Ágætu hátíðargestir.

„Fyrstu konurnar, brautryðjendurnir, verða auðvitað fyrir ýmsu hnjaski, aðeins vegna þess að þær eru konur – en slíkt má ekki setja fyrir sig. Þegar konum fjölgar á Alþingi Íslendinga hverfur það, að ráðist sé á þær sérstaklega af því, að þær eru konur.“

Þessi orð skrifaði Ingibjörg H. Bjarnason í grein í Lögréttu árið 1930, skömmu eftir að þingsetu hennar lauk. Þau segja allt sem segja þarf um það hvernig henni leið þau átta ár sem hún sat á Alþingi. Hún var fyrst, hún var ein og hún var ekki boðin velkomin af öllum í sölum Alþingis.Hún fékk að heyra athugasemdir sem beindust að útliti hennar, aldri og þeirri staðreynd að hún var ógift og barnlaus. Hún var ásökuð um svik við málstað kvenna og hún var beitt þöggun. Hún átti þó sínar góðu stundir og kom nokkrum mikilvægum málum í höfn einkum framan af þingferlinum.

Ingibjörg H. Bjarnason fæddist árið 1867 á Þingeyri við Dýrafjörð en flutti barnung til Bíldudals þar sem faðir hennar rak verslun. Hún ólst upp í hópi fjögurra bræðra en foreldrar hennar misstu nokkur börn, líklega úr barnaveiki. Þegar Ingibjörg var á tíunda ári varð faðir hennar, Hákon Bjarnason, úti á Mýrdalssandi. Fjölskylda hennar varð því fyrir miklum harmi sem eflaust hefur haft sín áhrif á börnin. Þremur árum síðar seldi móðir hennar, Jóhanna Þorleifsdóttir, verslunina og flutti til Reykjavíkur, væntanlega til að koma börnum sínum til mennta. Þrír bræðra Ingibjargar, þeir Þorleifur, Lárus og Ágúst, urðu hálærðir menn, doktorar og prófessorar, en sá fjórði, Brynjólfur, fetaði í fótspor föðurins og gerðist kaupmaður. Ingibjörg hlaut óvenjumikla menntun miðað við það sem konum bauðst á þeim tíma. Hún stundaði nám við Kvennaskólann í Reykjavík og sótti einnig tíma hjá Þóru Pétursdóttur sem meðal annars kenndi teikningu og hannyrðir. Ingibjörg hélt síðan til náms í Danmörku. Þar lauk hún fyrst Íslendinga námi sem leikfimikennari.

Eftir að Ingibjörg kom heim frá námi árið 1896 gekk hún til liðs við kvennahreyfinguna og var virk í Thorvaldsenfélaginu og Hinu íslenska kvenfélagi sem var þá eina félagið sem hafði kvenréttindi á stefnuskrá sinni. Síðar varð hún félagi í Hringnum, Lestrarfélagi kvenna og Heimilisiðnaðarfélaginu.

Ingibjörg vann fyrir sér með kennslu þar til hún varð skólastýra Kvennaskólans í Reykjavík 1906. Hún var í öðru sæti á framboðslista kvenna til bæjarstjórnar í Reykjavík árið 1910 og var efst á kvennalistanum sem boðinn var fram í Alþingiskosningunum árið 1922 en þá átti að kjósa þrjá þingmenn í landskjöri. Þeim tveimur konum sem sátu í bæjarstjórn Reykjavíkur hafði verið „sparkað“ fyrr um veturinn og var framboðið til Alþingis, sem var í nafni kosninganefndar kvenna, tilraun til að ná valdi til baka og tryggja að konur ættu einhverstaðar kjörna fulltrúa og málsvara. Ingibjörg náði kjöri og sat á Alþingi til ársins 1930.

Ferill Ingibjargar sýnir að hún var virk í félagslífi og baráttu kvenna fyrir bættum réttindum. Árið 1915 var hún valin í nefnd kvenna sem afhenti Alþingi þakkarávarp er konur eldri en 40 ára fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Eftir þá afhendingu var haldinn útifundur á Austurvelli og þar hélt Ingibjörg ræðu sem sýnir að hún var meðal áhrifakvenna innan kvennahreyfingarinnar. Í kjölfarið vildi íslenska kvennahreyfingin þakka fyrir kosningaréttinn með því að færa þjóðinni gjöf og hún var ekki af minna taginu. Það átti að byggja Landspítala. Sjóður var stofnaður og varð Ingibjörg formaður sjóðsstjórnar sem safnaði miklum peningum næstu árin.

Kosningabarátta kvenna árið 1922 varpar ljósi á hugmyndir Ingibjargar og þess hóps kvenna sem stóð að framboðinu. Í ávarpi kosninganefndar kvenna var lögð áhersla á að velferðarmálin vantaði talsmann á þingi, til að mynda Landspítalamálið. Minnt var á að konur sæju heiminn öðrum augum en karlar, þær sæju vanda þar sem karlar sæju engan. Í ávarpi Ingibjargar til kjósenda sagði hún um hlutverk sitt á Alþingi: „ ... mun ég álíta mig komna þangað til þess að gæta hagsmuna þjóðar minnar, svo sem ég best veit – til að fylgja því sem flestum má að gagni koma á sameiginlegu þjóðarheimili karla og kvenna. En auðvitað býst ég við að þau mál gætu komið fyrir, að ég sérstaklega yrði að gæta hagsmuna kvenna.“

Kosningarnar fóru fram 8. júlí en það tók langan tíma að safna atkvæðunum saman til Reykjavíkur og telja þau. Úrslit lágu fyrir 24. ágúst og þá kom í ljós að kvennalistinn hafði fengið 22,4% atkvæða. Ingibjörg var réttkjörin við misjafna hrifningu dagblaðanna. Ólafur Friðriksson ritstjóri Alþýðublaðsins brást hinn versti við, enda taldi hann kvennalistann hafa haft þingsæti af Alþýðuflokknum. Hann sakaði konur um heimsku, þær hefðu ekki vitað hvað þær voru að kjósa.

Þing kom ekki saman fyrr en 15. febrúar 1923. Á fyrsta þinginu sem Ingibjörg sat reyndi á samstöðu kvenna. Til umræðu var gamalt en viðkvæmt baráttumál sem meðal annars snerist um betra siðferði. Það var sjálft áfengisbannið sem var í húfi. Algjört áfengisbann gekk í gildi á Íslandi árið 1915. Bindindishreyfingin hafði lengi barist fyrir banni og var mikið fylgi við það innan kvennahreyfingarinnar.  

Spánn var um þessar mundir mikilvægasti markaður Íslendinga en saltfiskur var aðalútflutningsvara landsins. Spánverjar hótuðu að hætta að kaupa saltfisk ef Íslendingar keyptu ekki vörur af þeim. Árið 1922 samþykkti Alþingi undanþágu frá áfengisbanninu og leyfði innflutning svokallaðra Spánarvína í eitt ár gegn miklum mótmælum. Árið 1923 samþykkti Alþingi að afnema bannið gagnvart vínum frá Spáni þar sem gríðarlegir þjóðarhagsmunir væru í húfi. Ingibjörg H. Bjarnason greiddi atkvæði með því en gerði ekki grein fyrir ástæðum þess. Afstaða hennar olli mörgum kvenréttindakonum miklum vonbrigðum og var hún gagnrýnd harðlega og samþykktir gerðar á landsfundi kvenna sumarið 1923 vegna þessa máls.
Deilan um Spánarvínin varð þingmönnum svo erfið vegna mikilla mótmæla að borin var fram sérstök þingsályktunartillaga til að skýra og réttlæta þessa gjörð þingsins en það er algjört einsdæmi í sögu Alþingis.

Það er sérkennilegt hve treg Ingibjörg var til að verja sig þegar hún lenti í andstöðu, hvort sem það var innan þings eða utan og það kom henni í koll síðustu ár hennar á þingi þegar árásir á hana jukust og allt var tínt til. Ragnhildur Pétursdóttir formaður Hins íslenska kvenfélags gaf út heilan bækling árið1928 gegn Ingibjörgu einkum vegna andstöðu hennar við húsmæðrastefnuna sem vikið verður að síðar. Að mínum dómi átti að koma í veg fyrir að Ingibjörg byði sig fram aftur en það stóð reyndar aldrei til eftir því sem best er vitað.

Árið 1924 gerðist Ingibjörg einn af stofnendum Íhaldsflokksins. Sagan endurtók sig: Hún gerði ekki opinberlega grein fyrir ástæðum þess að hún tók þessa ákvörðun en segja má að þar með hafi hún gengið gegn þeim forsendum sem kvennalistinn byggðist á. Í kosningabaráttunni var lögð mikil áhersla á að kvennalistinn væri sjálfstæður listi allra kvenna. Eftir kosningarnar leyfði Morgunblaðið sér að leggja saman atkvæði lista Jóns Magnússonar ráðherra og kvennalistans sem hlut borgaralegra afla. Því mótmæltu fulltrúar kvennalistans og sögðu að hinn nýkjörni fulltrúi „teldist að svo stöddu ekki til neins sérstaks flokks sem nú væri til í landinu.“

Afar líklegt er að Ingibjörg hafi talið sig vera of einangraða utan flokka og að hún myndi ekki ná baráttumálum sínum fram ein á báti. Kenning mín er sú að Ingibjörg hafi samið við Íhaldsflokkinn um Landspítalamálið og framtíð Kvennaskólans í Reykjavík gegn því að hún gengi til liðs við hinn nýja flokk. Það munaði um atkvæði hennar til að flokkurinn næði meirihluta á þingi. Veturinn eftir að stjórn Íhaldsflokksins var mynduð var gerður samningur um byggingu Landspítala og frumvarp lagt fram um að Kvennaskólinn yrði gerður að ríkisskóla en fjárhagur hans var mjög ótraustur. Landspítalinn var byggður en Kvennaskólinn varð ekki ríkisskóli fyrr en löngu síðar.

Ingibjörg var mjög sjálfstæð sem þingkona, fór sínar eigin leiðir og lagðist stundum gegn málum flokksbræðra sinna, t.d. því hjartans máli Jóns Þorlákssonar að leggja járnbraut austur fyrir fjall. Reyndar naut hún afar sjaldan stuðnings frá þeim. Í umræðum árið 1929 viðurkenndi hún meira að segja að hafa kosið kvennaframboðið 1926. Tryggðin við flokkinn var ekki meiri en það.

Menntun kvenna varð Ingibjörgu mjög erfitt mál. Það snerist um það hvort leggja skyldi höfuðáherslu á að mennta konur sem húsmæður og beina þeim inn á heimilin eða hvort þeim ættu að vera allar leiðir opnar til þátttöku og starfa úti á vinnumarkaðnum. Það þarf vart að taka fram að Ingibjörg vildi sjá konur sem víðast í áhrifastöðum. Ingibjörg átti í miklum deilum við Jónas Jónsson frá Hriflu sem beitti sér fyrir uppbyggingu húsmæðraskóla bæði áður og eftir að hann varð menntamálaráðherra. Það sem gerði stöðu Ingibjargar sérstaklega erfiða var að hávær hluti kvennahreyfingarinnar var á sömu skoðun og Jónas og sætti Ingibjörg harðri gagnrýni úr þeirri átt. Ingibjörg lýsti skoðun sinni þannig að hún sæi ekki að það eina sem konum byðist væri að „sitja undir askloki því sem kallast að gæta bús og barna ... Nútíminn heimtar meira af konunum, og þær vilja fá tækifæri til þess að búa sig undir störf á sem flestum sviðum.“

Þar er skemmst frá að segja að sjónarmið Ingibjargar urðu undir og hófst mikil uppbygging húsmæðraskóla um land allt, húsmæðrastefnan varð ofan á meðan örfár konur stunduðu langskólanám. Sigríður Matthíasdóttir sagnfræðingur hefur túlkað þessa deilu sem átök um hlutverk kvenna innan þjóðríkisins. Margir, bæði karlar og konur, töldu utanaðkomandi hugmyndir millistríðsáranna um „nýju konuna“, frjálsu konuna í silkisokkum og með drengjakoll, ógna heimilunum og þjóðlegum gildum.

Þegar kom að velferðarmálum og réttindamálum kvenna naut Ingibjörg óskoraðs stuðnings kvennahreyfingarinnar enda bar hún erindi hennar og tillögur inn á þing. Þegar á reyndi létu kvenfélögin sér í léttu rúmi liggja að Ingibjörg tilheyrði Íhaldsflokknum. Þau reyndu ýmist að nýta sér setu hennar á þingi eða styðja þau málefni sem hún beitti sér fyrir með jákvæðum umsögnum og áskorunum.

Eins og áður er nefnt lagði Ingibjörg mikla áherslu á byggingu Landspítalans. Árið 1925 var gerður samningur um byggingu spítalans og lagði Landspítalasjóðurinn þá fram helming áætlaðs byggingarkostnaðar. Þetta var mikið velferðarmál sem komst í höfn skömmu eftir að Ingibjörg kvaddi þingið en spítalinn tók til starfa í lok árs 1930. Ingibjörg studdi einnig Hringinn með ráðum og dáð en félagið vann að byggingu berklahælis í Kópavogi. Það voru engin smá verkefni sem kvenfélögin sinntu í heilbrigðismálum sem þeim fannst ríkið ekki sinna sem skyldi.

Af öðrum málum sem Ingibjörg lagði fram má nefna tillögu um að útrýma úr lögum rétti kvenna til að skorast undan kjöri en slíkar undanþágur var að finna í mörgum lagabálkum um verkefni sveitarfélaga.Tillagan var samþykkt eftir ótrúlegt þref, þar sem m.a. var nefnt að ekki ætti að skylda húsmæður með lögum til að vera að heiman dögum saman. Ingibjörg vildi þó gera undanþágu varðandi nefnd um kynbætur hrossa en þá gripu þingmenn tækifærið og spurðu hvers hrossarækin ætti að gjalda og sögðu hana ekki samkvæma sjálfri sér. Ingibjörg dró þegar í land og sagði að vel mætti vera að einhverjar konur hefðu vit og áhuga á kynbótum hrossa. 

Þá lagði Ingibjörg fram tillögur um styrki til gamalmenna og sjúklinga og mál um bætta stöðu óskilgetinna barna. Síðasttalda málið var baráttumál Mæðrastyrksnefndar sem var stofnuð árið 1928 í kjölfar hörmulegs sjóslyss. Ingibjörg lagði fram margar tillögur um stuðning við kvennasamtök og einstaklinga. Þar má nefna styrk til Bandalags kvenna til að skrifa sögu íslenskra kvenna í þúsund ár í tilefni af þúsund ára afmæli Alþingis árið 1930. Því miður náði sú tillaga ekki fram að ganga. Þá lagði hún til að þingið styrkti Bríeti Bjarnhéðinsdóttur til ferðar á afmælisþing alþjóðakosningaréttarsambandsins sem haldið var í Berlín árið 1929 og var það samþykkt. Af því tilefni birti Spegillinn mynd af Bríeti fljúgandi á kústi á leið á nornaþing. Segir það nokkuð um hvernig litið var á hina öldnu baráttukonu og kvennahreyfinguna þótt reyndar hafi verið um grín að ræða.

Þótt nokkrar tillögur Ingibjargar væru samþykktar var andstaðan og þögnin sem ríkti um aðrar og mun mikilvægari tillögur hennar áberandi síðustu ár hennar á þingi. Þar má t.d. nefna stórmerka tillögu um að hæfar konur yrðu skipaðar í allar opinberar nefndir. Hún var samþykkt í efri deild, þar sem Ingibjörg sat, eftir töluvert andóf, en felld umræðulaust í neðri deild.  

Eins og fram hefur komið mætti Ingibjörg gagnrýni, árásum, stríðni og jafnvel dónaskap. Það gilti líka um aðra þingmenn en orðræðan gagnvart Ingibjörgu var óneitanlega krydduð kvenfyrirlitningu. Hún var sökuð um að láta tilfinningarnar ráða í stað rökvísi sem hún sagði vera slúður og var greinilega mjög örg yfir slíkum athugasemdum. Ingibjörg var dregin inn í kosningabaráttuna árið 1926 þegar kvennalisti var boðinn fram í síðasta sinn á vegum Kvenréttindafélags Íslands og Hins íslenska kvenfélags. Ingibjörg kom ekki nálægt kosningabaráttunni að því er séð verður en hún varð engu að síður fyrir hörðum árásum. Stjórnmálaflokkarnir voru ákveðnir í að koma í veg fyrir að önnur kona yrði kjörin á þing af kvennalista. Ingibjörg var það víti sem konur áttu að varast. Hún var svikari, íhald og „sá öfuguggi að vinna í þinginu gegn kynsystrum sínum“ sagði Jónas frá Hriflu.

Á þingi var vísað til útlits hennar, t.d. er Magnús Kristjánsson fjármálaráðherra sagði um hana í umræðum um Landspítalann að kvennaríkið vildi hafa endaskipti á hlutunum og að konur gerðust nú breiðar í sessi. Ingibjörg brást hin reiðasta við þessum ummælum og sagði:

Jeg skil þetta sem það eigi að vera fyndni og ætla ekki að fara að svara því. En jeg skil ekki, að vera mín á Alþingi gefi tilefni til að álíta, að þessi samkoma sje nokkuð ver skipuð, þótt konur eigi þar sæti. Að stjórnin fari sínu fram hvað sem konur segja, það má vel vera. En konur eru meira en helmingur þjóðarinnar og kjósendanna, - geta orðið helmingur Alþingis, þegar stundir líða, hver veit. Og þá kann að vera, að hæstv. landsstjórn fari að taka tillit til þess, sem konur segja.

Jónas frá Hriflu sakaði Ingibjörgu stöðugt um svik við málstað kvenna en ekkert var fjær lægi. Hann sagði m.a.:  „[Ingibjörg] hefur gleymt kynsystrum sínum og áhugamálum þeirra en elt Íhaldsflokkinn og þó einkum hv. 4. landskj. út á allar hans pólitísku villigötur ... Hún lætur sér sæma að níðast á allri húsmæðrafræðslu í landinu.“ Undir lok ferils hennar lét Jónas eftirfarandi ummæli falla: „[Hjá Ingibjörgu kemur fram] sams konar  ergelsi og öfund eins og kemur fram hjá konum, sem eru farnar að eldast, en hafa engin afkvæmi eignast, gagnvart heiðarlegum mæðrum ... Og ekki get ég gert að því, þó hv. 2. landskj. þm [Ingibjörg] sé dálítið leiðinlegur.“ Þarna vísaði hann til þess að hin virðulega skólastýra sem var að verða 62 ára væri að eldast, ætti ekki börn og væri hreinlega leiðinleg. Svoleiðis fólk átti greinilega lítið erindi inná hið háa Alþingi að hans dómi.   

Eftir að setu Ingibjargar lauk á þingi snéri hún sér alfarið að stjórn Kvennaskólans í Reykjavík. Heilsu hennar hrakaði og hún leitaði sér lækninga erlendis. Eftir að Ísland var hernumið af Bretum vorið 1940 kom Ingibjörg aðeins við sögu. Annars vegar leigði hún breska hernum Kvennaskólann til að afla fjár en hins vegar varð hún yrkisefni í frægum slagara þar sem hún er sögð banna námsmeyjum að notast við það sem náttúran gaf þeim en hvísla sjálf: „það er draumur að vera með dáta og dansa fram á nótt“.

Ingibjörg lést 1941 og var hennar minnst mjög hlýlega, jafnvel af Jónasi frá Hriflu. Átök fyrri ára voru gleymd og grafin. Þegar hún lést sat engin kona á þingi og eins og við vitum liðu margir áratugir þar til þeim tók að fjölga að ráði. Það tekur tíma að breyta hugarfari og ríkjandi gildum. Einhverjir verða að ríða á vaðið og það er erfitt að komast yfir  straumharða á.

Góðir hátíðargestir:
Það sem er mikilvægast þegar við horfum til baka er að Ingibjörg H. Bjarnason kom mikilvægum málum á dagskrá, sem arftakar hennar fylgdu eftir síðar. Hún naut lengst af stuðnings kvennahreyfingarinnar og var fyrst og fremst fulltrúi hennar. Hún var mikilvæg fyrirmynd, málsvari kvenna, barna og þeirra sem minna máttu sín í íslensku samfélagi. Blessuð sé minning Ingibjargar H. Bjarnason.