Hælsærið mitt

Auður Magndís Auðardóttir skrifar

Hælsærið mitt

Ég er með hælsæri. Krónískt hælsæri. Það er óþægilegt og hamlandi. Ef ég væri ekki með hælsæri þá gæti ég gengið miklu lengra á hverjum degi. Ég gæti unnið lengur og væri hamingjusamari í alla staði. En ég sit uppi með krónískt hælsæri. 

Fjölmargir hafa ráðlagt mér hvað ég á að gera við þetta hælsæri. Haldnir hafa verið margir fundir um málið. Stærð og gerð hælsærisins er mjög vel þekkt. Það er lítil blaðra á einum stað, nokkur svæði eru aum og á stöku stað blæðir stundum. Ég hef prófað marga ólíka plástra en ég er líka farin að skoða ígræðslur sem gætu styrkt húðina. Margar rannsóknir hafa verið gerðar þar sem þróun hælsærisins er gerð skil en það hefur verið svipað í um tuttugu ár.

Sumir læknar vilja meina að ef til vill væri gott að skoða af hverju ég er með krónískt hælsæri. Þeir vilja meina að einhver orsök hljóti að vera fyrir því. Sett hefur verið fram sú kenning að það sé vegna skónna sem ég geng í og að það dugi ekki að setja bara plástur og mæla stöðugt stærð hælsærisins. Eins og skórnir skipti einhverju máli? Þeir vilja meina að það hjálpi lítið að benda mér stöðugt á hversu langt ég gæti gengið ef ég væri ekki með hælsæri. Þeir benda á að sú vitneskja hafi ekki látið hælsærið mitt minnka. Mér finnst þetta óttaleg svartsýni því með jákvæðu hugarfari hefur mér tekist að láta það minnka um 0,03% á síðastliðnum 5 árum! Mér finnast þessir læknar sem hafa verið að benda á að það þurfi að skoða skóna öfgarugludallar. Þeir hafa reynt að halda fundi þar sem skoða á gerð skónna minna og hvernig mætti bæta skóbúnað minn til að hælsærið grói en ég nenni ekki að hlusta á svoleiðis bull. Þeir hafa líka sótt um fjármagn til að skoða tengsl skóbúnaðs við hælsæri en það gengur víst eitthvað illa að fá peninga í það enda augljóst að þetta er bara einhver þvættingur. Þessir skór hafa gagnast mér vel í mörg ár og ég fer sko ekki að skipta núna um skó. Það væri hneisa og gæti leitt til þess að ég verði fallvölt.

Á þennan sama hátt tölum við um launamun kynjanna. Við mælum hann og skoðum í bak og fyrir ár eftir ár og komumst almennt að svipaðri niðurstöðu, ár eftir ár. Það er launamunur á kynjunum og hann minnkar lítið. Hann er meiri hér og minni þar. Höldum fund eftir fund um launamuninn, birtingamyndir hans og bestu plástrana á hann. En þegar ræða á kynjakerfið og hvernig allt samfélagið kennir okkur frá því við erum í ungabörn að það sem er kvenlegt sé minna virði en það sem er karlmannlegt - þá er það of langt gengið. Ég veit að það hljómar ótrúlega en þessi launamunur dettur ekki bara af himnum ofan. Launamunur kynjanna er afleiðing af þjóðfélagi sem metur konur og kvenleg verk minna virði en önnur verk. Í kapítalísku þjóðfélagi sýnum við virði með peningum. Þess vegna fá konur lægri laun. Þær fá bæði lægri laun heldur en karlar í sömu starfsstétt en kvennastéttir eru líka í heild sinni með lægri laun heldur en karlastéttir. Af hverju eru félagsráðgjafar með lægri laun en lögfræðingar? Álíka mikil ábyrgð á velferð fólks. Álíka langt háskólanám. Það er engin ástæða fyrir því önnur en sú að störf sem sinnt er mestmegnis af konum eru vanmetin. Það er litið niður á þau.


Við byrjum að innbyrða þetta mat strax í frumbernsku. Okkur þykir lítið að því að klæða stelpur í blá föt, enda er það virðisauki fyrir þær, en að klæða strák í bleik föt er í besta falli skoplegt í versta falli argasta móðgun og vanræksla. Kona sem stundar skotveiði og keyrir um fjöll á stórum jeppa þykir töffari og fær aukna virðingu en karl sem heklar þykir kjánalegur, sérstaklega meðal annarra karla. Hann er að taka niður fyrir sig. Karlar sem fara í hjúkrun þykja bleyður fyrir að fara ekki í læknisfræði.

Þegar við svo höldum fundi um þetta, um staðalmyndir kynjanna, um femínisma, um birtingamyndir kynjanna í afþreyginarefni fyrir börn, um kynjakerfið, um klám og ofbeldi, um jafnrétti í skólastarfi, um skaðlega karlmennsku - þá þykir það í besta falli óþarfa tuð en kannski svosem allt í lagi að kynjafræðingar sé að dunda sér í svona dúlleríi. Í versta falli ógn við yfirráð karlmennskunnar. En það þykir ekki koma okkur sem þjóðfélagi í heild við. Það þykir ekki koma fjármálaráðuneytinu við eða Samtökum atvinnulífsins eða stéttarfélögunum. Það þykir ekki koma kynbundna launamuninum við eða vera spurning um mannréttindi.

Ef við ætlum raunverulega að útrýma kynbundnum launamuni, hælsæri þjóðarinnar, þá þurfum við að horfast í augu við að við sköpum hann sjálf sem þjóðfélag. Það gerum við með því að taka því sem eðlilegu að strákum finnist hallærislegt að leika við stelpur og vera í „stelpulegum“ fötum eða leika með „stelpuleikföng“. Það gerum við með því að bjóða bara stelpunum eða bara strákunum í afmælið og ýta undir þá menningu að þetta séu tveir svo gjörólíkir hópar að ekkert sé eðlilegra en að þeir talist varla við. Það gerum við með því að gera engar athugasemdir við markaðssetningu á leikföngum, fötum og afþreyingu sem gengur út á kynjaskiptingu. Og að gera engar athugasemdir við menningu sem gengur út að kenna okkur að kynin séu í eðli sínu ólík. Þetta gerum við með því að nenna ekki að spá í barnaefni sem sýnir konur ítrekað í styðjandi hlutverkum við drífandi og kraftmiklar karla. Við neitum að horfast í augu við áhrif þessarar menningar á gildismat okkar á hinu karllæga og hinu kvenlega og hvernig það endurspeglast í ólíkum launum einstaklinga og starfsstétta. Á meðan þetta er staðan erum að eilífu dæmd til að ganga um með hælsæri.

________________________________________________________________________________

Þessi grein birtist áður í Studninni þann 24.október 2016