Í þágu mannréttinda, jafnréttis og friðar

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna 8. marsÁrið 1910 var ákveðið á þingi sósíalískra kvenna í Kaupmannahöfn að gera 8. mars að alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Smátt og smátt öðlaðist þessi dagur vinsældir og viðurkenningu og er nú einn af þeim dögum sem Sameinuðu þjóðirnar leggja áherslu á sem dag mannréttindabaráttu. 
Um allan heim eru haldnir fundir og kröfugöngur farnar, sumstaðar því miður í skugga hervalds og fjandsamlegra stjórnvalda. Á þessum degi leitar hugurinn til þeirra þúsunda kvenna og barna sem eru á flótta undan stríðsátökum, ofbeldi, eyðileggingu og hungri. Mannréttindi þeirra eru fótum troðin. Konur eru mikill meirihluti flóttamanna í heiminum en í fréttamyndunum sem við sjáum ber mest á ungum karlmönnum. Við fáum sjaldan að heyra raddir kvennanna. 

Það er ástæða til að hafa miklar áhyggjur af pólitískri þróun í Evrópu þar sem ýmis konar hægri öfgaflokkar vaða uppi, kveikja í búðum flóttamanna og amast við réttindum kvenna. Eitt af því sem sameinar þessi öfl er hatur á femínisma sem birtist í hatursorðræðu og ofsóknum á hendur einstökum konum eða samtökum. Þetta er þróun sem snúast þarf gegn og herða baráttuna fyrir mannréttindum og málfrelsi allra, ekki síst þeirra kvenna sem brotið er á svo víða um heim.  
Hér á landi er haldið upp á daginn meðal annars með baráttufundum í Reykjavík og á Akureyri. Fundurinn í Reykjavík snýst um kynbundna og kynferðislega áreitni á vinnustöðum og standa fjöldamörg samtök að fundinum þar á meðal Jafnréttisstofa. Að undanförnu hafa verið gerðar rannsóknir á kynferðislegri áreitni á vinnustöðum, m.a. á veitingastöðum og innan lögreglunnar. Í ljós hefur komið að ótrúlega mikið er um slíka áreitni, einkum gagnvart konum, og það er eins og hún sé ekki tekin alvarlega í samfélagi okkar. Dæmin sanna að kynferðisleg áreitni getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þann sem fyrir verður. Því miður er það oft þolandinn sem hættir í vinnu vegna skorts á stuðningi og aðgerðum til að stöðva áreitnina. Við þurfum sannarlega að taka okkur á við að kveða niður kynferðislega áreitni.  

Á Akureyri verður fjallað um uppeldi til jafnréttis og veitir ekki af í hinum blá/bleika heimi þar sem staðalmyndir kynjanna eru ógnarsterkar og koma í veg fyrir að einstaklingar fári notið hæfileika sinna.  Eins og við vitum er íslenskur vinnumarkaður mjög kynskiptur, t.d. í heilbrigðis- og skólakerfinu þar sem konur ráða ríkjum Í hefðbundnum iðn- og tæknigreinum eru karlar í miklum meirihluta. Það er engin ástæða til að hafa þetta svona en það hefur skort á markvissar áætlanir til að breyta hugarfari og ýta undir fólk að fara óhefðbundnar leiðir ef löngun stendur til þess. Í þessu samhengi snýst umræðan ekki aðeins um skólakerfið og vinnumarkaðinn sem því miður viðhalda staðalmyndum heldur líka foreldrana og hlutverk þeirra. 

Eftir að Rauðsokkahreyfingin kom til sögunnar 1970 var mikið rætt um verkaskiptingu á heimilum og jafnréttisuppeldi. Það má segja að kynjakerfið hafi brugðist hart við með blá/bleiku byltingunni, sem stórjók áherslu á aðskilnað kynjanna og staðalmyndir í stað þess að brúa bilið. Hver er staða foreldra frammi fyrir þrýstingi markaðsaflanna og íhaldsseminni sem leitast við að viðhalda rótgrónum kynjahlutverkum? Stöndum við okkur nógu vel við að búa ungt fólk undir framtíðna sem jafngilda þegna sem fá að njóta sín í samfélagi okkar? Um þetta verður rætt á fundi Zontaklúbbanna og Jafnréttisstofu á Akureyri. 

Þann 8. mars er líka afmæli Stígamóta sem nú halda upp á 26 ára afmæli samtakanna. Ég sendi Stígamótum afmælis- og baráttukveðjur. Enn er gríðarlegt verk að vinna við að kveða niður kynferðisofbeldi. Það er því víða pottur brotinn í heiminum þegar horft er til réttinda og stöðu kvenna. Því er brýnt að brýna raustina á alþjóðlegum baráttudegi kvenna í þágu mannréttinda, jafnréttis og friðar.