Kennum kynjafræði!

Hanna Björg Vilhjálmsdóttir skrifar

Kennum kynjafræði!

Sagan er svo glimrandi góð leið til að útskýra núið. Með henni getum við skoðað fyrirbæri í sögulegu samhengi, tengt við nútímann og varpað þannig skýrara ljósi á veruleikann.
Konur hafa þurft að gjalda fyrir kynferði sitt frá upphafi siðmenningar, frá drekkingum til drusluskömmunar. Kerfisbundin kúgun hefur verið hluti af daglegu lífi kvenna um allan heim frá örófi alda. Aukin virðing gagnvart konum og þeim hlutverkum sem ætluð hafa verið konum í gegnum söguna skiptir sköpum í jafnréttisbaráttunni.

Þeir sem hafa notið forréttinda taka ekki eftir misrétti og verða blindir á yfirburðastöðu sína. Fræðsla getur orðið til þess að fólk skilur mikilvægi þess að setja sig í spor annarra. Tengsl launamisréttis og kláms eru kannski ekki augljós við fyrstu sýn, en ef normalíseruð kvenfyrirlitning er sett inn í jöfnuna skerpist skilningurinn og samfléttað misrétti á öllum sviðum samfélagsins afhjúpast.

Þjálfun í notkun á kynjagleraugum í öruggu rými kennslustofunnar opnar möguleika nemenda, ekki bara á samfélagslegum skilningi og gagnrýnni hugsun, heldur líka til farsældar og hamingju. Nemendur sjá að reglusafnið í kynjakerfinu, sem takmarkar okkur öll og skaðar, snýst ekki um okkur heldur um fjandsamlega menningu sem við öll erum ofurseld. 

Skilningurinn er valdeflandi og gefur nemandanum forsendur til að verja sig fyrir skaðlegum áhrifum samfélagskrafna. Knýjandi þörfin á að gefa stúlkum varnir gegn síöskrandi útlitskröfum er slík að það er nánast siðleysi að hunsa.

Það er margt fallegt, jákvætt og gott í karlmennskunni – en þar er líka að finna heftandi þætti og hörku sem skaðar bæði karla sjálfa og aðra í kringum þá. Það þarf að endurskilgreina karlmennsku og frelsa karla undan oki úreltra hugmynda um hlutverk þeirra og hegðun.

Sagan sýnir okkur að þrátt fyrir mikla baráttu hefur ekki tekist að ná jafnrétti. Menntakerfið er hluti af vandanum – nú þarf það að verða hluti af lausninni með markvissri kynja- og jafnréttisfræðslu, þar sem hinsegin fræðsla er sjálfsagður hluti af námsefninu.  

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 1.desember 2016.