Kristín Eggertsdóttir

Hlín Bolladóttir skrifar

Kristín Eggertsdóttir

Fyrsta konan til að taka sæti í bæjarstjórn Akureyrar.Ef sérð þú gamla konu, þá minnstu móður þinnar,
sem mildast átti hjartað og þyngstu störfin vann
og fórnaði þér kröftum og fegurð æsku sinnar
og fræddi þig um lífið og gerði úr þér mann.

Þú veist, að gömul kona var ung og fögur forðum,
og fátækasta ekkjan gaf drottni sínum mest.
Ó, sýndu henni vinsemd í verki og í orðum.
Sú virðing sæmir henni og móður þinni best.

Því aðeins færð þú heiðrað og metið þína móður
að minning hennar verði þér alltaf hrein og skír,
og veki hjá þér löngun til að verða öðrum góður
og vaxa inn í himin – þar sem kærleikurinn býr.

Þessar ljóðlínur Davíðs Stefánssonar snertu hjartastrengi mína þegar minnast á konu úr fortíðinni, Kristínar Eggertsdóttur, sem var fyrsta konan í bæjarstjórn Akureyrar, árið 1911. Í ritgerð eftir Rannveigu Oddsdóttur segir að margir merkir Íslendingar hafi ritað ævisögu sína eða aðrir ritað hana. Það eru því til ævisögur um mismerkilega menn og konur en margar merkilegar hafa hreinlega gleymst. Það var reynsla Rannveigar þegar hún fór af stað til þess að afla sér heimilda um Kristínu Eggertsdóttur. En eftir að hafa grúskað í gömlum blöðum, lesið fundargerðarbækur og talað við fólk tókst henni þó að taka saman helstu upplýsingar um Kristínu.
Kristín Eggertsdóttir var fædd 20.apríl árið 1877 á Kroppi í Hrafnagilshreppi og var elsta barn hjónanna Eggerts Davíðssonar og Jónínu Vilhelmínu Kristjánsdóttur. Snemma bar á þrá Kristínar til að mennta sig en fá tækifæri voru fyrir konur að afla sér menntunar á þeim tíma. Faðir hennar studdi hana og stundaði hún nám við húmæðraskólann á Laugalandi í Eyjafirði á árunum 1888 – 90. Eftir að skólinn flutti til Akureyrar, og hét þá Kvennaskólinn á Akureyri, kenndi Kristín þar til ársins 1901. Eftir það var Kristín við nám í Reykjavík og síðar í Noregi í tvö ár. Skírteini frá þeim skóla hafa ættingjar hennar varðveitt og ber það vitni um frábæran námsárangur. Þegar Kristín kom til baka frá námi í byrjun árs 1907 sótti hún um forstöðustarf við sjúkrahúsið á Akureyri. Henni var veitt starfið og sjúkrahúsnefndin taldi hana fullfæra um það. Það segir nú margt um stöðu kvenna á þessum tíma að þegar Kristín var ráðin í starfið þá var föður hennar tilkynnt það fyrst! Eins kemur fram í ritsmíð Rannveigar sést, í þeim samningi sem gerður var við Kristínu, glöggt launamunur karla og kvenna því ef karlmaður átti að vaka yfir sjúklingi átti að borga honum 2 krónum fyrir nóttina en ef kvenmaður átti að sinna starfinu voru launin 1 króna.

Kristín sagði starfi sínu við sjúkrahúsið lausu árið 1912 enda þá komin í bæjarstjórn. Hún átti þar sæti í 3 ár en fór eftir það til Englands og Danmerkur, kom heim eftir 2 ár og hóf rekstur á hóteli á Oddeyrinni og rak það þar til hún lést, eftir erfið veikindi, árið 1924.

Kristín var langt á undan sinni samtíð og brautryðjandi í því sem hún tók sér fyrir hendur. Heimildir um setu hennar í bæjarstjórn sýna að hún átti sæti í kjörstjórn, skólanefnd og fátækranefnd. Hún var dugleg og mikilhæf kona, hafði skýra hugsun og ákveðnar skoðanir ásamt því að vera fylgin sér og framkvæmdi það sem hún ætlaði sér. Hún þótti hörð og gat orðið hvassyrt um það sem henni þótti miður fara. Kristín var áhugasöm um hinar ýmsu listir, sérstaklega leiklist og tónlist, var barngóð og hvatti bæði ungmenni og aðrar konur til náms. Og í erfðaskrá sinni gerði hún ráðstafanir í þá veru. Kristín var barnlaus og giftist aldrei en það kann að vera að hún hafi verið og sjálfstæð fyrir karlmenn þessa tíma og ekki eftirsóknarvert, af þeirra hálfu, að standa í skugganum af henni. Rannveig Oddsdóttir á þakkir skyldar fyrir ritgerð sína um Kristínu því fólk sem ekki á afkomendur vill oft gleymast þegar frá líður og minnstu munaði að svo færi með Kristínu Eggertsdóttur.

Mig langar í þessari sömu andrá að minnast annarrar konu, Vilhelmínu Lever, sem varð fyrst kvenna hér á landi til þess að taka þátt í opinberum kosningum árið 1863, nítján árum áður en takmarkaður hópur íslenskra kvenna fékk kosningarétt til sveitastjórna. Árið 1863 var í fyrsta skipti kosið til bæjarstjórnar á Akureyri. Tólf manns, sem höfðu árið áður greitt átján fiska, eða meira í útsvar til bæjarins og uppfyllt þannir kosningaskilyrði, greiddu atkvæði. Ein þeirra var Madame Vilhelmina Lever. Skýringin á þessu er væntanlega sú að kosið var samkvæmt dönskum lögum og þar segir að “alle fuldmyndige Mænd hafi rétt til að kjósa” Dönskukunnáttan brást kjörstjórninni á Akureyri og Vilhelmína greiddi atkvæði – enda eru konur líka menn! Þann 19. júní árið 2003 stóð Jafnréttisnefnd Akureyrar fyrir útisamveru í tilefni hátíðardags íslenskra kvenna og var þá gróðursett í fyrsta sinn í þeim reit er fékk nafnið Vilhelmínulundur og er til minningar um Vilhelmínu Lever athafnakonu. Starfinu verður haldið áfram og vonast ég til að hitta fyrir sem flesta Akureyringa til gróðursetningar þar 19. júní, nú árið 2011. Skáldið Steinn Steinarr fær að eiga lokaorðin hér:

Í fjarska, á bak við allt, sem er,
býr andi þess, sem var.
Og andi þess, sem enn er hér
er ekki þar.


Erindi flutt af Hlín Bolladóttur bæjarfulltrúa L-listans á Akureyri