- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Stafrænt kynbundið og kynferðislegt ofbeldi er ein áleitnasta áskorun jafnréttis- og mannréttindamála samtímans. Skilgreining hugtaksins mótast hratt, samhliða tækniþróun, og reynir að fanga ofbeldi sem beinist að konum og stúlkum – eða fólki vegna kyns, kyngervis eða kyntjáningar – sem er framkvæmt og breiðist út með hverskonar hagnýtingu á tækni.
Ofbeldið getur átt sér stað á netinu, í símum, á samfélagsmiðlum eða með aðstoð gervigreindar. Birtingarmyndir eru fjölbreyttar og íþyngjandi: óumbeðin dreifing kynferðislegra mynda án samþykkis, stafrænar falsmyndir, kynferðisleg áreitni á netinu á borð við óumbeðnar myndir og skilaboð, notkun eltihrella á tækni til hótana eða kúgunar, hatursorðræða í garð stjórnmálakvenna, transfóbískar árásir á samfélagsmiðlum og áfram mætti telja.
Stafrænt ofbeldi skerðir frelsi okkar, traust, öryggi og lýðræðislega þátttöku þeirra sem fyrir ofbeldinu verða. Rannsóknir sýna að meirihluti íslenskra kvenna sem hafði orðið fyrir stafrænu ofbeldi tilkynna ofbeldið ekki og leita ekki réttar síns. Ástæðan er sú, helst, að þær vantreysta réttarvörslukerfinu og telja þar af leiðandi ástæðulaust að tilkynna ofbeldið til lögreglu eða kæra.
Evrópuráðið og mikilvægi alþjóðlegra skuldbindinga
Til Íslands er oft litið sem fyrirmyndarríki í jafnréttismálum. Undanfarin ár höfum við stigið mikilvæg skref og uppfært löggjöf í takt við breytt viðhorf til réttinda kynjanna og réttinda hinsegin fólks. En alþjóðlegar eftirlitsstofnanir minna einnig á að lagasetningin ein og sér tryggir ekki raunverulegt jafnrétti.
GREVIO, eftirlitsnefnd Evrópuráðsins með framkvæmd Istanbúl-samningsins, hefur bent á að Ísland standi vel að mörgu leyti, en glími þó áfram við verulegar kerfislægar áskoranir í ofbeldisforvörnum og þjónustu við þolendur. Þar má nefna ójafna þjónustu eftir búsetu, skerta þjónustu fyrir hinsegin fólk og aðra minnihlutahópa, óljósa ábyrgðarskiptingu milli stofnana og skort á samræmdum gögnum sem gerir það erfitt að meta umfang og þróun ofbeldis í landinu.
Evrópuráðið hefur í bígerð ný tilmæli til aðildarríkja um ábyrgð þeirra í vinnu gegn stafrænu ofbeldi. Þar er lögð áhersla á heildræna nálgun – að aðgerðir þurfi að ná yfir lagaumhverfi, skyldur hins opinbera, fræðslu, löggæslu, tæknifyrirtæki, fjölmiðla, frjáls félagasamtök og menntakerfi. Heildræn samfélagsnálgun verkefnisins felur í sér að virkja bæði formlegar og óformlegar stofnanir til að ná víðtækri samstöðu um markmið, stefnu og leiðirnar til að ná þeim.
Íslensk stjórnvöld hafa nýverið kynnt landsáætlun gegn kynbundnu ofbeldi gegn konum 2026–2030 sem tekur mið af þessum áherslum og markar mikilvægt skref í átt að skýrari ábyrgð, betri þjónustu og skýrum aðgerðum.
Aðgerðir fram undan – og mikilvægi þátttöku karla og drengja
Til að uppræta stafrænt kynbundið og kynferðislegt ofbeldi þarf samræmda stefnu, skýra ábyrgðarskiptingu og þolendamiðuð úrræði. Fagfólk innan lögreglu, dómskerfis, félagsþjónustu, bandaverndar, heilbrigðiskerfis og skóla þurfa sérhæfða fræðslu um birtingarmyndir ofbeldisins og hvernig bregðast skuli við af skilvirkni. Tæknifyrirtæki og samfélagsmiðlar verða að axla aukna ábyrgð og tryggja að kæruferli, tilkynningar og öryggisráðstafanir séu skýrar og taki mið af þörfum þolenda. Samhliða því þurfa stjórnvöld að tryggja samfellu í þjónustu, aðgengi að úrræðum og eftirfylgni sem nýtast öllum landsmönnum.
Aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi verða ekki árangursríkar án virkrar þátttöku karla og drengja. Nýjar leiðbeiningar Evrópuráðsins um karla og jafnrétti leggja áherslu á að karlar geti verið öflugir bandamenn í þessari baráttu. Þeir geta tekið afstöðu gegn niðrandi orðræðu, staðalmyndum og hatursorðræðu, sýnt virðingu og skilning á mikilvægi samþykkis í samskiptum og sett skýr mörk bæði í vinahópum og á vinnustöðum. Þegar karlar nýta stöðu sína getur samfélagið allt orðið öruggara, réttlátara og betur í samræmi við þau gildi sem við viljum að einkenni íslenskt þjóðfélag.
Baráttan gegn stafrænu kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi snýst því ekki aðeins um framkvæmd laga og lagasetningu, kerfi eða stofnanir. Hún snýst líka um fólk – um frelsi okkar, virðingu og rétt til að lifa lífi án ótta. Það er sameiginleg ábyrgð okkar, og það er verkefni sem verður aðeins unnið þegar við sjálf tökum þátt.
Greinin byggir á erindi sem flutt var á Amtsbókasafninu þann 25. nóvember sl., í tilefni af ljósagöngu við upphaf 16 daga átaks gegn kynbundu ofbeldi.
Tryggvi Hallgrímsson er félagsfræðingur og sérfræðingur á Jafnréttisstofu, fulltrúi Íslands í Jafnréttisnefnd Evrópuráðsins og varaformaður sérfræðinganefndar Evrópuráðsins um ritun tilmæla um ábyrgð aðildarríkja í baráttu gegn stafrænu kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi gegn konum og stúlkum.