Þekking til framfara

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skrifar

Þekking til framfara

Ávarp flutt við úthlutun styrkja Jafnréttissjóðs, kvennafrídaginn 24. október 2013

Kvennafrídagurinn 24. október er merkilegur dagur í sögu íslenskrar kvennahreyfingar því segja má að þann dag árið 1975 hafi hún á ný risið upp sem hin öfluga, fjölmenna samstöðuhreyfing sem hefur mótað samfélag okkar æ síðan. Framlag hennar er mikilvægt fyrir þróun jafnréttisbaráttunnar, en ekki síður fyrir þróun stjórnmálanna og lýðræðisins.

Frá upphafi hefur áherslan verið á réttindi kvenna á vinnumarkaði, launajafnrétti og aðgengi að menntun, störfum og valdastöðum innan atvinnulífs og stjórnmála. Þess vegna er 24. október hátíðar- og baráttudagur og mikilsvert tilefni til að minna okkur öll á ríkulegt framlag kvenna til lífsgæða, mannréttinda og auðlegðar Íslands.

Í tilefni af 30 ára afmæli kvennafrídagsins á sínum tíma og í þakkarskyni við framlag jafnréttishreyfingarinnar til þróunar samfélagsins var stofnað til Jafnréttissjóðs til að styrkja nýsköpun þekkingar á sviði jafnréttis- og kynjafræða með sérstakri áherslu á stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Í því fólst viðurkenning á nauðsyn þess að efla rannsóknir á hlutskipti kvenna og karla og að skjóta sterkari stoðum þekkingar undir

starf að jafnrétti kynjanna á margvíslegum vettvangi, bæði á vegum stjórnsýslunnar sem annarra. Sérstaklega skyldi styðja ungar fræðikonur við uppbyggingu á fræðimannsferli sínum. Að auki höfðu sterkar líkur verið leiddar að því að konur sem umsækjendur eða rannsóknarverkefni á sviði jafnréttis kynja gætu borið skarðan hlut frá borði við samkeppni um fé í rannsóknarsamfélaginu í heild.

Jafnréttissjóður hefur nú styrkt hátt á þriðja tug rannsóknarverkefna. Í dag er úthlutað styrkjum til fimm ólíkra rannsókna sem öll munu nýtast í jafnréttisstarfinu. Rannsóknirnar snúa að launajafnrétti kynjanna, viðhorfum unglinga til verkaskiptingar kynja, ólíkum áhrifum atvinnuleysis á sálræna líðan karla og kvenna auk þess sem sjónum verður beint að orðræðu samfélagsins sem tengist móðurhlutverkinu. Loks ber að nefna rannsóknarverkefni þar sem kastljósinu verður beint að fjarveru kvenna á sýningum íslenskra menningarminjasafna. Með þessu leggur Jafnréttissjóður sitt lóð á vogarskálarnar til eflingar þekkingar sem nýtist jafnréttisbaráttunni og samfélaginu öllu.

Til hamingju með daginn.